Hlutabréfaverð Snap Inc., sem heldur úti samfélagsmiðlinum Snapchat, hefur lækkað um 25% í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag. Gengi Snap hefur nú fallið um meira en 80% frá áramótum.

Í uppgjöri fyrir þriðja ársfjórðung, sem félagið birti eftir lokun markaða var í gær, kemur fram að áfram hægist á söluvexti Snap sem hefur nú ekki verið minni frá því að félagið var skráð á markað árið 2017. Tekjur Snap jukust um 6% á milli ára og námu 1,13 milljörðum dala en greiningaraðilar áttu von á að tekjurnar yrðu nær 1,14 milljörðum dala.

Í bréfi til hluthafa sagði Snap að auglýsendur væru að draga úr auglýsingaútgjöldum vegna horfa í heimshagkerfinu, vaxandi verðbólgu og hækkandi fjármagnskostnaðar. Fyrirtækið kenndi einnig aukinni samkeppni og erfiðleikum tengdum nýjum reglum Apple um öflun persónuupplýsinga.

Snap tapaði 360 milljónum dala, eða sem nemur 52 milljörðum króna, á öðrum fjórðungi sem er um fjórfalt meira tap en á sama tíma í fyrra. Félagið gjaldfærði um 155 milljónir dala vegna endurskipulagningar á rekstrinum, sem fól m.a. í sér hópuppsögn á ríflega fimmtungi af starfshópi fyrirtækisins.