Fjárfestingafélagið Stoðir skilaði 19,9 milljarða króna hagnaði á árinu 2021 og skilaði 64% ávöxtun. Eignarhlutir félagsins í Arion banka, Símanum og Kviku banka hækkuðu verulega á árinu sem Jón Sigurðsson forstjóri lýsir sem uppskeruári hjá Stoðum. Fjárfestingafélagið fjárfesti einnig í Bláa lóninu, Play, laxeldisfyrirtækinu Landeldi og sérhæfða yfirtökufélaginu SPEAR á síðasta ári.
„Aukið vægi óskráðra eigna í eignasafninu er í samræmi við áherslur okkar. Vonandi mun takast að auka vægi óskráðra eigna enn frekar en við munum þó aldrei láta þá áherslu ganga framar því að ná sem bestri ávöxtun. Jafnframt er ljóst að vægi erlendra eigna verður að aukast á næstu árum en til lengri tíma litið telst það skynsamleg ráðstöfun út frá áhættu,“ skrifar Jón í bréfi til hluthafa Stoða sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.
Stærsta fjárfesting Stoða á síðasta ári voru kaup á 7,3% eignarhlut í Bláa Lóninu. „Bláa Lónið er félag sem Stoðir hafa fylgst með lengi og þegar tækifæri gafst til að kaupa hlut í félaginu var ákveðið að nýta það,“ skrifar Jón. Hann bendir á að vörumerki Bláa Lónsins sé vel þekkt alþjóðlega og telur að tækifæri séu til staðar hjá félaginu til að nýta það, annars vegar í frekari uppbyggingu hótela og baðstaða hér innanlands en ekki síður í vörusölu erlendis.
Þá eru Stoðir þriðji stærsti hluthafi Play eftir að hafa tekið þátt í hlutafjáraukningu flugfélagsins í mars og við skráningu á First North-markaðinn í júlí. Á seinni hluta síðasta árs tóku Stoðir þátt í tæplega tveggja milljarða króna fjármögnunarlotu Landeldis og eignuðust þriðjungshlut í laxeldisfyrirtækinu sem er staðsett í Ölfusi.
Stoðir komu einnig að stofnun sérhæfða yfirtökufélagsins SPEAR og fjárfestu í félaginu fyrir 5 milljónir evra, eða tæplega 710 milljónir króna, sem hornsteinsfjárfestar í hlutafjárútboði fyrir skráningu í Euronext kauphöllina í Amsterdam í nóvember. Stoðir hyggjast taka afstöðu til frekari fjárfestingar í SPEAR þegar næstu skref félagsins liggja fyrir.
Góð ávöxtun af lykilfjárfestingum
Verðmætasta fjárfestingin í eignasafninu er 4,7% hlutur í Arion banka sem tvöfaldaðist að virði í fyrra og nam verðmæti hlutarins 15 milljörðum um áramótin. Jón segir að „ótrúlegur viðsnúningur“ hafi átt sér stað í rekstri bankans. Auk góðs árangurs starfsfólks bankans segir Jón að rekstrarumhverfið hafi verið hagfellt og verði það líklega áfram, m.a. vegna aukinnar veltu á mörkuðum, meiri umsvifa í fyrirtækjaverkefnum og vaxtahækkunarferli Seðlabankans.
Sjá einnig: Sér eftir lágum vöxtum
Stoðir eru stærsti hluthafi Símans með 15,4% hlut að verðmæti 13,9 milljarðar í lok síðasta árs. Verðmæti hlutarins jókst um 62% í fyrra. Um 78 milljarða króna sölu á dótturfélaginu Mílu nefnir Jón að „ekki verði annað sagt en að vel hafi tekist til við söluna“. Jón, sem er stjórnarformaður Símans, segir að verkefni þessa árs verði að kára söluna á Mílu, skipuleggja starfsemi Símans eftir söluna og taka ákvörðun um ráðstöfun á söluandvirðinu.
Stoðir voru jafnframt stærsti hluthafi bæði Kviku banka og TM þegar félögin sameinuðust á síðasta ári en minnkuðu hlut sinn í sameinuðu félagi um meira en fjórðung í nóvember „til að fjármagna nýjar fjárfestingar félagsins“. Jón segir að samruninn hafi gengið vonum framar og ljóst sé að stór hluti þeirrar samlegðar sem kynnt var við sameininguna hafi þegar skilað sér í reksturinn. Í haust tilkynnti Kvika um undirritun viljayfirlýsingar um kaup á 65% hlut í brúarlánafyrirtækinu Ortus, þar á meðal allan 30% eignarhlut Stoða í breska fyrirtækinu. Kvika tilkynnti á miðvikudaginn að kaupin væru frágengin.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .