Gögn frá HMS gefa til kynna frekari kólnun á fasteignamarkaði en framboð íbúða til sölu jókst á milli mánaða, kaupsamningum fækkar, sölutími lengist og færri íbúðir seljast yfir ásettu verði. „Fasteignamarkaðurinn heldur áfram að kólna og hefur viðsnúningurinn verið nokkuð hraður,“ segir í nýrri mánaðarskýrslu HMS.

Fram kemur að nú séu um 1.300 íbúðir til sölu á höfuðborgarsvæðinu samanborið við 1.049 íbúðir í byrjun september. Til samanburðar var lágmarkinu var náð í febrúar síðastliðnum þegar innan við 450 íbúðir voru til sölu. Framboð íbúða hefur því nærri þrefaldast á ríflega átta mánuðum.

„Fjöldi nýrra íbúða til sölu hefur hins vegar ríflega fimmfaldast og um 30% aukningarinnar sem hefur orðið frá því í byrjun febrúar er til kominn vegna þeirra.“

Á landinu öllu hefur orðið svipuð hlutfallsleg aukning framboðs á fjölbýli og sérbýli. Nú eru um 935 íbúðir í fjölbýli til sölu á höfuðborgarsvæðinu og 356 sérbýli.

Kaupsamningum fækkað hratt

Kaupsamningum á landinu öllu fækkaði úr 751 í 661 á milli júlí og ágúst. Sé miðað við árstíðaleiðréttar tölur fjölgaði kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu lítillega. „Fyrir utan júlímánuð hafa kaupsamningar ekki verið svo fáir síðan í júlí 2014.“

Viðskiptum með íbúðir í fjölbýli hefur fækkað meira en viðskiptum með sérbýli á undanförnum misserum.

Tákn um minnkandi eftirspurnarþrýsting“

Á höfuðborgarsvæðinu seldust 44% íbúða í fjölbýli yfir ásettu verði í ágúst samanborið við 53% í júlí og 42% sérbýla samanborið við 48% í júlí. Þegar mest var seldust 70% íbúða í fjölbýli og 60% sérbýla yfir ásettu verði.

„Verulega hefur dregið úr hlutfalli íbúða sem seljast yfir ásettu verði sem er tákn um minnkandi eftirspurnarþrýsting,“ segir í skýrslunni.

Þá jókst meðalsölutími íbúða á höfuðborgarsvæðinu lítillega á milli mánaða en hann mældist að meðaltali 41,0 dagur í ágúst samanborið við 39,7 daga í júlí.