Heilsuræktarstöðin Hreyfing í Glæsibæ hagnaðist um 26,1 milljón króna á síðasta árisamanborið við 46,6 milljóna tap árið 2020.
Rekstrartekjur Hreyfingar jukust um 44% á milli ára og námu 777 milljónum. Þar af var 80 milljóna króna lokunarstyrkur en helmingur þeirrar fjárhæðar er styrkur fyrir árið 2020 sem var greiddur í byrjun síðasta árs.
Rekstrarkostnaður nam 661 milljón króna, en þar af voru laun og starfsmannakostnaður 286 milljónir. Ársverk voru 24 í fyrra.
Eignir Hreyfingar voru bókfærðar á 549 milljónir króna í lok síðasta árs. Þar á meðal voru verðbréf sem félagið fjárfesti í á síðasta ári. Eigið fé nam 372 milljónum og eiginfjárhlutfallið var því 67,8%.
Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar, á 4,6% hlut í félaginu. Stærsti hluthafi Hreyfingar er Kólfur ehf., sem er að stærstum hluta í eigu Gríms Sæmundsen, forstjóra Bláa lónsins, með 45% hlut. Þá fer Bláa lónið með 22% hlut í Hreyfingu.
Meðal annarra hluthafa Hreyfingar eru Sigurður Þorsteinsson, Helgi Magnússon, Sigurður Arngrímsson og Úlfar Steindórsson.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/134297.width-1160.png)