Stjórn HS Orku hefur ákveðið að greiða 10 milljónir dala, eða sem nemur um 1,4 milljörðum króna, til hluthafa félagsins með því að lækka hlutafé félagsins. Þetta var ákveðið á hluthafafundi félagsins sem fór fram 1. september sl.

Fór félagið þess á leit við fyrirtækjaskrá að veitt yrði undanþága frá því að gefin yrði út áskorun til kröfuhafa í samræmi við ákvæði sem finna má í lögum um hlutafélög. Fyrirtækjaskrá samþykkti beiðnina enda verði ekki séð að skuldir við lánadrottna séu fyrirstaða fyrir lækkun miðað við framlögð gögn.

HS Orka hagnaðist um nærri 1,9 milljarða króna í fyrra eftir að hafa hagnast um hátt í milljarð árið áður. Í desember í fyrra greindi Viðskiptablaðið frá því að félagið hafi greitt 3,6 milljarða króna til hluthafa með lækkun hlutafjár. Þá greiddi félagið hluthöfum 5,6 milljarða króna með kaupum á eigin bréfum árið 2020. Því hefur HS Orku samtals greitt út 10,6 milljarða króna til hluthafa sinna frá árinu 2020.

HS Orka er til helminga í eigu lífeyrissjóða og sjóða í stýingu Ancala Partners LLP.

Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.