Ingka Group, rekstraraðili flestra IKEA verslana á heimsvísu, hefur í fyrsta sinn ráðið forstjóra sem er ekki frá Svíþjóð.
Nýi forstjórinn er Spánverjinn Juvencio Maeztu sem hefur undanfarið starfað sem aðstoðarforstjóri og fjármálastjóri Ingka. Hann tekur formlega við forstjórastöðunni af Jesper Brodin þann 5. nóvember næstkomandi.
Brodin hefur leitt Ingka, stærsta smásölufyrirtæki heims á sviði húsgagnasölu, síðustu átta árin sem Financial Times lýsir sem krefjandi tímabili, m.a. vegna andláts stofnandans Ingvar Kamprad, umfangsmikilli röskun á aðfangakeðjum í Covid-faraldrinum og breyttra áherslna félagsins með opnun verslana í miðborgum og aukinni netverslun í forgrunni.
Maeztu hóf störf fyrir samstæðuna árið 2001 sem verslunarstjóri á Spáni. Hann rak síðar verslun Ikea á Wembley-svæðinu í London og starfsemi félagsins í Indlandi.
„Ikea hefur alltaf verið byggt á enduruppgötvun - að gera hlutina aðeins betri á hverjum degi. Ég sé enn mörg tækifæri til að gera Ikea enn vinsælla og halda áfram að vaxa um allan heim,“ sagði hann í viðtali við FT.
Ingka rekur um 88% af öllum Ikea-verslunum um allan heim. Tekjur félagsins drógust saman um 5% á síðasta rekstrarári og námu 42 milljörðum evra. Þá dróst hagnaður félagsins saman um helming, niður í 800 milljónir evra en félagið lagði aukna áherslu á verðlækkanir eftir verðhækkanir undanfarinna ára sem rekja mátti til téðra raskana á aðfangakeðjum í faraldrinum.