Heildarfjárfesting á byggingarmarkaði jókst um fimm prósent í fyrra og nam hún 562 milljörðum króna. Af þeirri upphæð voru 196 milljarðar króna í íbúðarhúsnæði, 119 milljarðar króna í opinberum mannvirkjum og 247 milljarðar króna í mannvirkjum atvinnuvega.
Þetta kemur fram í greiningu á síðu HMS en þar segir að fjárfesting í íbúðarhúsnæði hafi aðeins verið þriðjungur af heildarfjárfestingu á byggingarmarkaði.
„Þrátt fyrir aukna heildarfjárfestingu á byggingarmarkaði dróst fjárfesting í íbúðarhúsnæði saman um 2 prósent að raunvirði í fyrra, auk þess sem raunvirði fjárfestingar í opinberum mannvirkjum dróst saman um 9 prósent. Fjárfesting í mannvirkjum atvinnuvega jókst hins vegar um 20 prósent umfram hækkun byggingarvísitölu.“
HMS telur að íbúðarfjárfesting geti jafnvel verið enn minni hluti af heildarfjárfestingu þar sem tölur frá Hagstofunni innihalda einnig stimpilgjöld og þóknun. Slík gjöld geta samsvarað um 5% til 10% af fjárfestingu í íbúðarhúsnæði.
Þá störfuðu 5,2% fleiri í byggingariðnaði á fyrsta fjórðungi þessa árs, samanborið við sama tímabil í fyrra. Fjöldi starfsfólks í greininni er nú áþekkur því sem hann var fyrir fjármálahrunið 2008. Á sama tíma hefur þó íbúðum í byggingu fækkað og nam samdrátturinn um 9,3 prósentum á milli marsmánaða 2023 og 2024.