Heildarfjöldi farþega Icelandair var 519 þúsund í júní 2023, rétt rúmlega 20% fleiri en í júní í fyrra þegar farþegar voru 431 þúsund. Samtals hafa 1,8 milljónir farþega ferðast með félaginu á fyrri helmingi ársins og er 31% aukning frá því á sama tímabili í fyrra.
Af þeim farþegum sem ferðuðust með Icelandair í júní ferðuðust langflestir, eða 493 þúsund með millilandaflugi. Fjöldi farþega í innanlandsflugi var 25 þúsund.
„Sumarið hefur byrjað af krafti hjá Icelandair með yfir hálfa milljón farþega í júnímánuði. Starfsfólki félagsins hefur fjölgað umtalsvert að undanförnu og tókst hópnum vel til við að halda uppi öflugu leiðakerfi félagsins í mánuðinum. Við höldum áfram að sjá mikinn áhuga á ferðum til Íslands og til marks um það var slegið met í sætanýtingu til og frá Norður-Ameríku,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Tíðni farþega í millilandaflugi jókst um 21% en í tilkynningu frá félaginu segir einnig að stundvísi í millilandaflugi hafi verið 67%. Sætanýting hafi alls verið 86%, en í flugi til og frá Norður-Ameríku hafi sætanýting verið 90% og segir Icelandair það vera mestu sætanýtingu sem hefur verið hjá félaginu í júnímánuði.
Sætanýting í innanlandsflugi hafi eins verið 78,8% og var stundvísi 91%. Icelandair segir það töluvert betri en á sama tíma og í fyrra.
Fraktflutningar jukust einnig um 51% á milli ára, aðallega vegna aukningar í fraktflugi yfir Norður-Atlantshafið með tilkomu tveggja Boeing-767 breiðþota í fraktflota félagsins. Seldir blokktímar í leiguflugi voru þar að auki 5% fleiri en í sama mánuði í fyrra.