OMXI10 vísitalan lækkaði um 0,2% í dag og hefur vísitalan nú lækkað um 4,5% á árinu. Gengi 14 félaga af 20 á aðalmarkaði Kauphallarinnar lækkuðu í viðskiptum dagsins.
Alþjóðlegir hlutabréfamarkaðir voru rauðir við opnun í morgun. S&P vísitalan hefur lækkað um 0,52% frá opnun markaða og Dow Jones um 0,81%. Nikkei 225-vísitalan hefur lækkað um 1,71% frá opnun markaða. Mikil óvissa er um áhrif innrásar Rússlands í Úkraínu á heimshagkerfið, en talið er að væntanlegar viðskiptaþvinganir Evrópu og Bandaríkjanna á hendur Rússa muni leiða til verðhækkana á hráolíu.
Aðeins tvö félög hækkuðu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Gengi Icelandair hækkaði um 2,36% í 320 milljóna viðskiptum og gengi Íslandsbanka um 0,32% í 90 milljóna viðskiptum. Sýn lækkaði mest allra félaga, um 3% í 95 milljóna viðskiptum. Reitir lækkaði um 2,6% í 430 milljón króna viðskiptum og Brim um 2% í 30 milljóna viðskiptum.
Mest velta var með bréf Marel, en viðskipti með bréfin námu rúmum 1,1 milljörðum króna. Nokkur velta var síðan með bréf Arion, um 450 milljónir. Heildarvelta á aðalmarkaði nam 4 milljörðum króna.
Á First North markaðnum lækkaði gengi Solid Clouds um 10% í 700 þúsund króna viðskiptum. Flugfélagið Play lækkaði um tæp 0,8% í tæplega 70 milljóna viðskiptum og Kaldalón lækkaði um 1,5% í 400 þúsund króna viðskiptum.