OMXI10 úrvalsvísitalan hækkaði um 0,6% í 1,2 milljarða veltu í dag. Icelandair hækkaði mest allra félaga um 2,25% í 150 milljóna veltu. Þá lækkaði Skel fjárfestingafélag mest allra félaga, um 1,2% í óverulegum viðskiptum.
Icelandair birtir uppgjör eftir lokun markaða fimmtudaginn 20. október, en vísbendingar eru um kröftuga viðspyrnu ferðaþjónustunnar. Þannig var heildarfjöldi farþega Icelandair 387 þúsund í nýliðnum septembermánuði. Sætanýting var 83,3%, sem er besta sætanýting félagsins í septembermánuði frá upphafi. Fjöldi farþega var um 86% af fjöldanum í september árið 2019 og sætaframboð 84% af framboðinu 2019.
Mesta veltan var með bréf Origo, og námu viðskipti með bréfin 330 milljónum króna. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 1,9%. Þá var nokkur velta með Arion banka og Íslandsbanka. Viðskipti með bréf Arion námu 180 milljónum og lækkaði hlutabréfaverð í félaginu um tæplega eitt prósent. Þá námu viðskipti með bréf Íslandsbanka 150 milljónum og hækkaði gengi bréfa bankans lítillega, eða um 0,35%.
Alls hækkaði gengi tíu félaga á aðalmarkaði í dag, en gengið lækkaði hjá sex félögum. Þá stóð gengi sex félaga í stað í viðskiptum dagsins.
Lítil velta var á First-North markaðnum. Play hækkaði um tæplega eitt prósent í 7 milljón króna viðskiptum og Alvotech hækkaði um 0,8% í 10 milljón króna viðskiptum.