Icelandair Group og bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hafa undirritað viljayfirlýsingu um pöntun á 12 Boeing 737 MAX8 og 737 MAX9 flugvélum með kauprétti á 12 flugvélum til viðbótar.
Um er að ræða nýjar gerðir flugvéla og er áætlað að fyrstu vélarnar komi í rekstur flugfélaga árið 2017. Icelandair mun taka við fyrstu vélunum af þessum gerðum á fyrri hluta árs 2018, eða eftir rúmlega 5 ár.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair Group í morgun en Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að félagið ætti í viðræðum við bæði Boeing sem og evrópska flugvélaframleiðandann Airbus um kaup á 12 vélum sem afhentar yrðu árið 2017.
Í tilkynningunni kemur fram að pantaðar eru átta 737 MAX 8 vélar sem taka 153 farþega og fjórar 737 MAX 9 vélar sem taka 172 farþega miðað við sætafjölda Icelandair. Til samanburðar taka Boeing 757-200 flugvélar Icelandair 183 farþega.
„Heildarverðmæti flugvélanna 12 samkvæmt listaverði Boeing er um 1,2 milljarðar bandaríkjadala, eða um 180 milljarðar íslenskra króna, en kaupverð er trúnaðarmál,“ segir í tilkynningunni.
„Fyrirhugað er að fjármagna kaupin með sjóðstreymi frá rekstri og hefðbundinni flugvélafjármögnun þegar þar að kemur. Viðræður hafa átt sér stað við Export-Import Bank of the United States varðandi stuðning bankans við fjármögnun vélanna. Samkvæmt áætlunum félagsins hafa kaupin ekki áhrif á núverandi arðgreiðslustefnu.“
Þá kemur fram að Icelandair mun áfram nota Boeing 757 flugvélar í áætlunarflugi sínu með nýju flugvélunum enda henti þær einstaklega vel fyrir leiðakerfi félagsins sem nær til Evrópu og Norður-Ameríku.