Icelandair leggst gegn hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi í Fríhöfninni sem boðað er í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Flugfélagið telur að breytingin muni leiða til þess að hækka þurfi flugtengdar tekjur Isavia og að flutningur á tollfrjálsum varningi í farþegarými til Íslands aukist sökum þess að salan myndi færast í auknum mæli yfir til fríhafnar á brottfararflugvelli. Þetta kemur fram í umsögn Icelandair um fjárlög 2023, sem Bogi Nils Bogason, forstjóri flugfélagsins, skrifar undir.
Ríkisstjórnin hyggst hækka áfengisgjald í Fríhöfninni þannig að það fari úr 10% í 25% af hinu almenna áfengisgjaldi og tóbaksgjaldið úr 40% í 50%. Icelandair telur að þessar hækkanir muni ekki skila sér í auknum tekjum til ríkissjóðs „enda eru hækkanirnar til þess fallnar að draga úr eftirspurn“.
Flugfélagið segir að fyrirsjáanlega afleiðing breytingarinnar sé að hækka þurfi flugtengdar tekjur „sem myndi leggjast á farþega með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á flugrekendur“. Þá gæti hækkun áfengis- og tóbaksgjaldsins haft í för með sér að Isavia dragi úr þjónustu eða fresti framtíðaruppbyggingu á Keflavíkurflugvelli.
„Þarna er um að ræða söluvörur sem eru mikilvægar fyrir tekjuöflun á Keflavíkurflugvelli enda þekkt að mikil sala er á áfengi og tóbaki í komuverslun fríhafnarinnar. Afleiðing þessara hækkana er ósamkeppnishæft verðlag og því líklegt að salan muni færast í auknum mæli yfir til fríhafnar á brottfararflugvelli.“
Sjá einnig: Gæti boðið upp á 40% lægra verð en Fríhöfnin
Flutningur tollfrjáls varnings í farþegarými til Íslands mun því aukast „sem er mjög neikvæð þróun“. Umfang handfarangurs skapi þegar vandamál auk þess sem þyngd flugvéla og kolefnisspor muni aukast.
„Síðasta sumar var tveggja ára ferðaþörf að leysast úr læðingi og margir höfðu safnað upp ferðasjóðum á tíma Covid-19 faraldursins. Þetta verður ekki staðan á næsta ári enda hafa ferðasjóðir verið tæmdir og verðbólga mikil á öllum mörkuðum. Það væri því vænlegra fyrir ríkissjóð að lækka frekar gjöld sem snúa að ferðamönnum og auka þar með eftirspurn eftir ferðalögum til Íslands.“
Fagna niðurgreiðslu á innanlandsflugi
Í sömu umsögn fagnar Icelandair því að ríkisstjórnin hyggist auka framlag til Loftbrúar um 350 milljónir króna á árinu 2023 sem niðurgreiðir ferðir fyrir íbúa með lögheimili fjarri höfuðborgarsvæðinu. Fjárveiting til Loftbrúar nemur 550 milljónum króna á árinu 2023, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.
„Icelandair mun gera það sem í valdi félagsins stendur til þess að bæta þjónustuna fyrir þennan viðskiptamannahóp og koma til móts við þarfir farþega. Félagið tekur það hlutverk sitt alvarlega; að tengja saman höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina með flugsamgöngum og mun ekki láta sitt eftir liggja til að tryggja að Loftbrúin nýtist sem allra best fyrir landsmenn fjarri höfuðborgarsvæðinu.“
Leggjast gegn varaflugvallagjaldi
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 2.749 kr. á mánuði