Stefán Ólafsson, prófessor emeritus í félagsfræði og stjórnarformaður Gildis lífeyrissjóðs, telur lífeyrissjóðina upp til hópa hafa verið of hikandi við að fjárfesta í útleigu íbúðarhúsnæðis.

Framkvæmdastjóri Heimavalla kvartaði á sínum tíma yfir því að áhugaleysi sjóðanna – að Birtu undanskilinni sem var meðal stærstu hluthafa með tæp 10% – á bæði hluta- og skuldabréfum félagsins hefði leitt til óviðráðanlega fjármögnunarkjara sem neyddi félagið til að draga úr umsvifum. Félagið var að lokum keypt af norska leigufélaginu Fredensborg og afskráð úr Kauphöllinni.

„Ég er á því að lífeyrissjóðirnir hafi verið full íhaldssamir í að skoða þennan valkost, sem ég held að sé óheppilegt. Ég hef verið hlynntur því að lífeyrissjóðirnir gengju lengra í þá átt,“ segir Stefán um fjárfestingu í leigufélögum eða á annan hátt í fasteignum til útleigu.

Mörg fordæmi fyrir talsverðu slíku eignarhaldi lífeyrissjóða megi finna annars staðar í Evrópu sem dæmi, sem hafi skilað þeim prýðilegri ávöxtun.

„Ef lífeyrissjóðirnir kæmu inn í svona félög hér hefði það mjög jákvæð áhrif á húsnæðismarkaðinn hérna. Ég held að það væri heppilegt.“

Hann segist þó finna fyrir því að viðhorf sjóðanna sé loksins að breytast í þessum efnum.

„Mér finnst það farið að verða jákvæðara. Ég held að það sé mjög vaxandi skilningur á því að þetta geti verið góðar eignir sem geti skilað stöðugri og viðunandi ávöxtun til lengri tíma auk þess að vera vel tryggðar. En það á eftir að láta á það reyna.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.