Rafbílaframleiðandinn Rivian hefur tilkynnt um innköllun á nærri öllum bifreiðum sínum vegna mögulegs framleiðsluvanda sem gæti gert það að verkum að ökumenn missa stjórn á stýri sínu.

Rafbílaframleiðandinn sagðist hafa uppgötvað að festing á fremri fjöðrun ökutækjanna hafi mögulega ekki verið nægilega hert við framleiðslu.

Innköllunin nær til 12,2 þúsund rafknúna pallbíla og jeppa sem framleiddir frá árslokum 2021 til september síðastliðins. Fyrirtækið áætlar að um 1% af innkölluðum bílum beri þennan galla.

Talsmaður Rivian segir að engin slys af völdum gallans hafi verið tilkynnt.

Í umfjöllun Wall Street Journal segir að innköllunin hafi skeð á erfiðum tíma fyrir Rivian sem vinnur nú að því að auka árlega afkastagetu upp í 25 þúsund bifreiðar. Forstjórinn RJ Scaringe er undir þrýstingi að sanna fyrir fjárfestum að Rivian geti náð upp fjöldaframleiðslu á pallbílum og jeppum.

Rivian safnaði 11,9 milljörðum dala, eða sem nemur yfir 1.700 þúsund milljörðum króna á gengi dagsins, í frumútboði í lok síðasta árs.

Hlutabréf Rivian féllu um 7,6% á föstudaginn og hafa fallið um 6,8% til viðbótar í viðskiptum fyrir opnun markaða í dag.