Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,9% í 1,3 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Íslandsbanka eða um 415 milljónir króna.
Gengi Íslandsbanka stendur nú í 127 krónum á hlut og hefur ekki verið hærra við lokun Kauphallarinnar frá Íslandsbankaútboðinu í maí. Markaðsgengi hlutabréfa Íslandsbanka er nú 19,2% yfir 106,56 króna útboðsgenginu.
Hlutabréfaverð bankans hefur sveiflast á milli 125-127 krónur undanfarnar þrjár vikur.
Hampiðjan upp í 120 í fyrsta sinn í tæpt ár
Hlutabréfaverð Play hækkaði mest eða um 10% í fjórtán viðskiptum sem samtals nema ríflega einni milljón króna. Gengi Play stendur nú í 0,48 krónum á hlut.
Gengi Ölgerðarinnar hækkaði næst mest eða um 4% í 56 milljóna veltu og stendur nú í 18,2 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Alvotech hækkaði einnig um 2,4% í 215 milljóna veltu og stendur nú í 1.070 krónum.
Þá hækkaði gengi Hampiðjunnar um 2,6% í 85 milljóna veltu og stendur í 120 krónum á hlut. Hlutabréfaverð Hampiðjunnar verið 120 krónur eða hærra við lokun Kauphallarinnar frá því í ágúst 2024.
Gengi Sýnar lækkaði mest eða um 2,2% en velta með bréf félagsins nam þó aðeins 7 milljónum króna. Gengi Sýnar stendur nú í 26,6 krónum á hlut. Það hefur lækkað um 19% frá því að það fór upp í 33 krónur þann 23. júlí síðastliðinn.