Íslenskt móberg verður í fyrsta sinn notað við framleiðslu á vistvænni sementstegund sem framleidd er í Svíþjóð. Efnið dregur úr sementsþörf í steinsteypu um 20% og minnkar kolefnisspor sementsins um allt að 20%.

Nýja sænska/íslenska sementið var sett á markað í Svíþjóð í október síðastliðnum og segir í tilkynningu að samstarfið marki mikilvægt skref fyrir vistvæna mannvirkjagerð.

Þetta er jafnframt í fyrsta sinn sem móberg er flutt frá Íslandi í þessum tilgangi, en efnið dregur úr sementsþörf í steypu um allt að 20%.

„Þar sem sement er langstærsti einstaki losunarvaldurinn í steypu, og ber ábyrgð á 85–90% af kolefnisspori hennar, er hér um að ræða umtalsverðan umhverfislegan ávinning,“ segir í tilkynningu.

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins, segir að alþjóðlegt samstarf og þróunarverkefni í mannvirkjageiranum af þessari stærðargráðu geti haft mikil og jákvæð áhrif fyrir umhverfið.

„Þar sem kolefnisspor móbergs, með allri vinnslu og flutningi til Evrópu, er einungis um 4% af kolefnisspori hefðbundins sements, verður hægt að draga úr losun koltvísýrings í sementsiðnaði um allt að 20%,“ segir Þorsteinn.