Afkoma Síldarvinnslunnar á árinu 2023 verður nokkuð hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir samkvæmt jákvæðri afkomuviðvörun sem félagið sendi til Kauphallarinnar í morgun.
Í áætlun félagsins sem lögð var fram á fyrri hluta árs, var gert ráð fyrir að EBITDA samstæðu félagsins yrði á bilinu 107 – 117 milljónir Bandaríkjadala á árinu 2023.
Drög að uppgjöri fjórða ársfjórðungs 2023 liggur nú fyrir og samkvæmt því mun EBITDA hagnaður ársins nema um 121 milljón Bandaríkjadala sem samsvarar 16,7 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
„Útgerð og vinnsla hefur almennt gengið vel á árinu en á síðustu mánuðum hafa komið inn jákvæðir þættir í reksturinn sem skýra betri afkomu. Má þar nefna að verð á fiskimjöli og lýsi eru betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Atburðirnir sem hófust í Grindavík 10. nóvember sl. hafa á móti neikvæð áhrif vegna framleiðslustöðvunar og einskiptiskostnaðar við björgun afurða,“ segir í Kauphallartilkynningunni.
Síldarvinnslan mun birta ársuppgjör 7. mars næstkomandi.