Jeremy Hunt er nýr fjármálaráðherra Bretlands og verður hann fjórði fjármálaráðherra Bretlands á þessu ári og sá fimmti síðan í júlí 2019. Liz Truss forsætisráðherra rak Kwasi Kwarteng fyrrum fjármálaráðherra úr embætti fyrr í dag, en hún heldur blaðamannafund klukkan hálf tvö á íslenskum tíma.
Hunt hefur setið á breska þinginu frá árinu 2005. Hann var heilbrigðisráðherra á árunum 2012-2018 og var skipaður utanríkisráðherra árið 2018 eftir að Boris Johnson sagði af sér. Gegndi Hunt stöðunni í rúmt ár.
Hunt bauð sig fram í leiðtogakjöri Íhaldsflokksins árið 2019 gegn Boris Johnson. Þar hlaut Hunt 33,6% atkvæða en Boris Johnson 66,4%. Hunt bauð sig fram enn á ný í leiðtogakjörinu sem fór fram á þessu ári, í kjölfar afsagnar Boris Johnson. Hunt fékk hins vegar ekki mikinn stuðning á bak við sig og ákvað seinna meir að hætta við framboðið og styðja við framboð Rishi Sunak.
Kwasi Kwertang fer í sögubækurnar sem skammlífasti fjármálaráðherra Bretlands sem ekki hefur bókstaflega látið lífið í embætti.
Kwarteng kynnti umfangsmiklar ófjármagnaðar skattalækkanir í síðasta mánuði, sem áttu að kosta 45 milljarða punda. Í kjölfar tilkynningar ráðherrans hrundi gengi pundsins. Kwarteng og ríkisstjórn Truss tóku síðan U-beygju í byrjun mánaðar þar sem hætt var við umdeildustu skattalækkunina. Tillagan fól í sér að taka út hæsta skattþrep tekjuskatts í landinu, 45% skatt á tekjur yfir 150 þúsund pund eða meira á ári, eða sem nemur rúmum 24 milljónum króna.
The Rt Hon Jeremy Hunt MP @Jeremy_Hunt has been appointed Chancellor of the Exchequer @HMTreasury. pic.twitter.com/bldKWr3crG
— UK Prime Minister (@10DowningStreet) October 14, 2022