Lagerinn Iceland ehf., móðurfélag Jysk á Íslandi (áður Rúmfatalagersins) og húsgagnaverslunarinnar Ilvu, hagnaðist um 1.453 milljónir króna eftir skatta á síðasta fjárhagsári, sem náði frá 1. mars 2022 til 28. febrúar 2023, samanborið við 1.525 milljónir árið áður.
Tekjur samstæðunnar drógust saman um 5% milli ára og námu 14,2 milljörðum króna. Framlegð félagsins dróst saman um 2% og nam nærri 4,5 milljörðum króna. Rekstrargjöld jukust um 5% og námu 2,7 milljörðum.
Rekstrarhagnaður fyrir fjármagnsliði (EBIT) lækkaði um 11% milli ára og nam 1.768 milljónum króna.
„Rekstur félaga innan samstæðunnar var nokkuð stöðugur á árinu. Tekjur drógust saman um 5% og framlegð lækkaði vegna hækkana á innkaupsverði og vegna verulegra hækkana á flutningskostnaði. Eins jókst launakostnaður samstæðunnar samhliða samningsbundnum launahækkunum,“ segir í skýrslu stjórnar.
„Ráðist hefur verið til ýmissa hagræðingaraðgerða til að vega upp á móti áhrifum lækkandi framlegðar og hækkandi kostnaðar á reksturinn. Stjórnendur telja að rekstur á árinu 2023 verði með svipuðum hætti og á liðnu ári.“
Eignir samstæðunnar voru bókfærðar á tæplega 9,6 milljarða í lok febrúar síðastliðnum og eigið fé var um 7,6 milljarðar.
JYSK hagnast um 1,2 milljarða
Megnið af hagnaði síðasta rekstrarárs kom frá Rúmfatalagernum ehf., sem hagnaðist um yfir 1,2 milljarða króna á tímabilinu en til samanburðar hagnaðist smásöluverslunin um 1,5 milljarða árið áður. Hagnaður Ilvu dróst saman úr 72 milljónir í 35 milljónir milli ára.
Félagið Rif 3 ehf., sem er í eigu Lagersins Iceland, hagnaðist um 139 milljónir samanborið við 18 milljónir árið áður. Rif 3 er fjárfestingafélag sem á og rekur verslunarhúsnæði. Bókfært verð fasteign Rifs 3 nam 3,1 milljarði króna í lok febrúar síðastliðnum.