Framkvæmdafélagið Laugavegur ehf. hefur gengið frá kaupum á öllum fasteignum á svokölluðum Heklureit, sem nær til Laugavegar 168 og til og með 174. Þetta kemur fram í tilkynningu. Að félaginu stendur hópur fjárfesta sem Örn V. Kjartansson leiðir, en Davíð Másson fjárfestir er stjórnarformaður félagsins.
Sjá einnig: Uppbygging á Heklu reitnum í uppnámi
Í ferli innan skipulagsyfirvalda í Reykjavík er deiliskipulag um reitinn sem hefur verið auglýst. Samkvæmt deiliskipulagstillögunni er heimilt að byggja allt að 463 íbúðir, auk þjónustu og atvinnuhúsnæðis á jarðhæð við Laugaveg. Mikil fjölbreytni í stærðum íbúða er fyrirhuguð á Heklureitnum. Niðurrif og uppbygging mun eiga sér stað í í áföngum á næstu árum í samstarfi við borgaryfirvöld og aðra hlutaðeigandi aðila.
Félagið er fullt tilhlökkunar að breyta Heklureitnum í fjölbreytt og nútímalegt íbúðahverfi í hjarta borgarinnar og hyggur félagið á að fara sem fyrst af stað í framkvæmdir á reitnum, að því er fram kemur í tilkynningu.
Þannig vonast félagið til þess að geta hafist handa við undirbúning í sumar og framkvæmdir með haustinu í kjölfar þess að nýtt deiliskipulag verði samþykkt. Þá kemur Arion banki hf. að verkefninu sem fjármögnunaraðili en BBA//Fjeldco veitti félaginu lögfræðilega ráðgjöf í ferlinu.