Fasteignafélagið Bergey hefur fest kaup á fasteigninni að Snorrabraut 37, sem er betur þekkt sem Austurbæjarbíó.

Í kaupunum fylgir einnig rekstur pílubarsins Bullseye, sem hefur notið talsverðra vinsælda frá því að hann opnaði árið 2020.

Steinþór Helgi Arnsteinsson og Ásgeir Guðmundsson, eigendur staðanna Röntgens og Skreiðar, taka við rekstri Bullseye og Austurbæjarbíós. Þeir hafa metnaðarfull áform um að blása lífi í húsið með viðburðum, tónleikahaldi og áframhaldandi þróun Bullseye sem líflegs pílustaðar.

Þá kemur Ágúst Einþórsson, einn af stofnendum Brauð & co og eigandi BakaBaka og Hressó, til með að vera hluti af teyminu og sjá um veitingar í húsinu.

„Við erum ótrúlega spenntir að fá tækifæri til að starfa í þessu magnaða húsi sem býr yfir svona ríkri sögu. Við viljum virkja bláa salinn að nýju sem lifandi tónleikastað og skapa vettvang fyrir fjölbreytta menningarviðburði – allt í bland við það að gera Bullseye enn skemmtilegri áfangastað fyrir pílufólk og gesti,“ segir Steinþór Helgi.

Magnús Berg Magnússon, stjórnarformaður Bergeyjar, er hér á vinstri hönd. Steinþór Helgi Arnsteinsson (fyrir miðju) og Ágúst Einþórsson (til hægri) koma báðir að rekstri í húsinu.
© Samsett (SAMSETT)

Seljendur eru hjónin Jón Gunnar Bergs og María Soffía Gottfreðsdóttir. Ráðgjafi seljanda var lögmannsstofan BBA//Fjeldco en Arion banki hafði milligöngu um viðskiptin.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Þar er fjallað sögu hússins og áform Bergeyjar.