Íslenska félagið AI Green Cloud hyggst reisa gervigreindargagnaver í Ölfusi, líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá. Kjartan Hrafn Kjartansson er framkvæmdastjóri AI Green Cloud en hann stofnaði félagið síðasta sumar.

Kjartan segir að AI Green Cloude muni styðjast við lausn frá norska félaginu AI Green Byte, sem sé leiðandi í tækniþróun á gervigreindargagnaverum og þá sérstaklega svokallaðri djúpkælingu (e. immersion cooling) á vélbúnaði. Búnaðurinn er kældur með því að sökkva honum í tanka, sem eru fullir af óleiðandi, rafstýrðum vökva.

„Ég mun leiða fjárfestingu kringum byggingu gagnaversins, sem og kaup og uppsetningu á vélbúnaði,“ segir Kjartan. „AI Green Byte mun svo koma að rekstrinum, sölumálum og þjónustu.“

Kjartans segir að í samstarfi við AI Green Byte hafi verið gerð hagkvæmnigreining á þessu verkefni.

„Í stuttu máli var niðurstaðan sú að þetta verkefni sé arðbært,“ segir Kjartan. „Næsta skref var því að finna lóð og við erum komin með 3.000 fermetra lóð í Þorlákshöfn. Í fyrsta áfanga byggjum við 300 fermetra hús, sem hægt verður að byggja við að stækka upp í allt að 1.500 fermetra. Við hugsum þetta sem fimm hús, sem verða 300 fermetrar hvert."

Allt að 20 megavött

„Í fyrsta áfanga þurfum við 600 kílóvött af raforku en fullbyggt mun gervigreindargagnaverið þurfa allt að 20 megavött en það verður ekki fyrr en eftir 5 til 10 ár," segir Kjartan. „Við ætlum að fara rólega af stað og gera þetta skynsamlega. Kostnaður við fyrsta áfangann er á bilinu 5 til 6 milljarðar króna.

Við erum búin að útvega okkur orku í fyrsta áfanga. Hún verður keypt í smásölu. Við finnum klárlega fyrir því að það er orkuskortur í landinu. Landsvirkjun er sem dæmi ekki að gera nýja samninga við stórnotendur.

Við munum því kaupa raforkuna á sama verði og almenn fyrirtæki og á miklu hærra verði en hin gagnaverin, sem eru með stórnotendasamninga. Ég held að munurinn  á okkur og hinum sé að við eigum alla verðmætakeðjuna — húsið, vélbúnaðinn, sem og módelin og þjónustuna við endanotendur.“

Nánar er fjallað í málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geti lesið fréttina í heild hér.