Tónlistarveitan Spotify hefur fest kaup á írska tæknifyrirtækinu Kinzen, sem sérhæfir sig í að bera kennsl á villandi upplýsingar og hatursorðræðu, en fyrirtækin hafa átt í samstarfi frá árinu 2020.
Kaupin eru hluti af viðbrögðum Spotify við háværri gagnrýni í byrjun ársins vegna Covid-umræðu í The Joe Rogan Experience, vinsælasta hlaðvarpi streymisveitunnar, að því er kemur fram í frétt Reuters.
Í tilkynningu Spotify segir að tækni Kinzen henti einkar vel fyrir hlaðvörp og aðrar hljóðskrár og sé því vel fallið að streymisveitunni. Samstarf fyrirtækjanna sneri fyrst að efni vegna síðustu forsetakosninganna í Bandaríkjunum en hefur síðan verið víkkað út og nær m.a. til hatursorðræðu.