Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Kerecis velti 72 milljónum dollara, jafnvirði um 10 milljarða króna, á síðasta rekstrarári sem lauk þann 30. september síðastliðinn samkvæmt óendurskoðuðu uppgjöri félagsins. Þetta kemur fram í bréfi til hluthafa sem Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri Kerecis, hefur sent til hluthafa félagsins og Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

Tekjur Kerecis jukust samkvæmt því um 149% á milli ára en tekjurnar námu 29 milljónum dollara, um fjórum milljörðum króna, á fyrra rekstrarári. Þá voru tekjurnar einnig nokkuð umfram sölumarkmið ársins sem hljóðaði upp á 50 milljónir dollara.  Áætlað er að félagið hafi skilað rekstrarhagnaði fyrir afskriftir (EBITDA) á rekstrarárinu.

Kerecis hefur metnaðarfull áform um áframhaldandi vöxt. Á aðalfundi félagsins í sumar kom fram að stefnt væri að því að tekjur fjárhagsársins 2023 yrðu um 130 milljónir dala, um 19 milljarðar króna og árið 2024 yrðu þær yfir 200 milljónir dala, eða yfir 27 milljarðar króna. 

Kerecis lauk í sumar 60 milljón dollara fjármögnun, um átta milljarða, til að undirbyggja vöxtinn. Þar af lagði Kirkbi, fjárfestingarfélag dönsku Lego-fjölskyldunnar, til 40 milljónir dala eða um 5,5 milljarða króna og eignaðist við það um 6% hlut í Kerecis. 

Helsta vara Kerecis er sáraroð sem unnið er úr þorski og framleitt á Ísafirði, en Bandaríkin eru stærsta markaðssvæðið. Hingað til hefur stærsti hluti tekna félagsins verið af sölu sáraroða sem nýtt er til meðhöndlunar á þrálátum sykursýkisárum. Félagið stefnir á að sækja fram með aukinni sölu á sáraroði við brunasárum sem og sáraroði sem nýtist á skurðstofum sem eru bæði mun stærri markaðir en sykursýkisárin.

Í Bandaríkjunum hefur Kerecis fjölgað sölusvæðum úr 20 í 140 á þremur árum en einn til þrír sölumenn á hverju sölusvæði. Til að dekka allar stærstu borgir landsins þurfi að fjölga sölusvæðunum í 240 samkvæmt bréfinu til hluthafa. Því er stefnt á að ráða minnst 70 nýja sölumenn á yfirstandandi rekstrarári sem hófst 1. október.