Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics og forstöðumaður rannsóknaseturs um kerfisáhættu í fjármálakerfinu, segir Englandsbanka hafa brugðist rétt við í síðustu viku með því að kaupa ríkisskuldabréf fyrir 55 milljarða punda, sem er um það bil 2,5% af þjóðarframleiðslu Bretlands. Ella hefði verð ríkisskuldabréfa fallið mikið meira.

„Þarna virkaði kerfið eins og það á að gera.“

Jón nefnir að finna megi bæði skuldir og eignir í efnahagsreikningum lífeyrissjóðanna og eru þeir að vissu leyti náttúrulega varðir fyrir vaxtabreytingum.

Annars vegar lækki skuldabréf þeirra í virði þegar ávöxtunarkrafan hækki. Hins vegar falli einnig núvirðing á skuldbindingunum vegna hækkananna á ávöxtunarkröfunni. Þannig lækki skulda- og eignahliðin á efnahagsreikningnum samhliða hækkunum á ávöxtunarkröfum og áhrifin séu síðan öfug þegar krafan lækki.

Vandamálið felst í því að eignirnar eru á markaði en skuldbindingarnar ekki. Hafi lífeyrissjóðirnir gert einhverja afleiðusamninga á eignahliðinni og tapi peningum af þeim, þá falli skuldbindingarnar líka.

„Jafnvel þó sjóðirnir séu í raun náttúrulega varðir þá þurfa þeir að mæta veðköllum á eignahliðinni í kjölfar hærri ávöxtunarkröfu. Lífeyrissjóðirnir eru því að tapa á eignahliðinni og þurfa að mæta veðköllum daglega. Þó að sjóðirnir hafi í raun grætt á skuldbindingahliðinni, þá eru þeir að tapa á skuldahliðinni. Lífeyrissjóðirnir neyðast því til að selja ríkisskuldabréf, sem falla þá í verði og ávöxtunarkrafan hækkar enn frekar og ýtir undir frekari veðköll. Þetta verður síðan ákeðinn vítahringur,“ segir Jón.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í dag.