Gunnars ehf. er í sölumeðferð að því er fram kemur í auglýsingu í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Þar segir að félagið sé verið leiðandi í framleiðslu og sölu á majónesi, sósum og ídýfum. Þá er áhugasömum bent á að hafa samband við Lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners eigi síðar en 19. apríl.

Samkvæmt nýjasta ársreikningi Gunnars er Kleópatra Kristbjörg Stefánsdóttir hluthafi félagsins. Rekstrartekjur árið 2020 voru 389 miljónir króna og lækkuðu um 1% á milli ára. 19,7 milljóna tap var á rekstrinum miðað við 16,6 milljóna tpa árið áður. Rekstrartap nam 16,3 milljónum króna en var 13,1 milljón árið 2019.

Stöðugildi voru 13 að meðaltali árið 2020 en 16 árið 2019. Félagið nýtt hlutabótaleið stjórnvalda hluta ársins þar sem heimsfaraldurinn var sagður hafa haft neikvæð áhrif á reksturinn. Engu síður hækkaði launakostnaður úr 132 milljónum í 143 milljónir á milli ára.

Eignir félagsins í árslok 2020 voru 158 milljónir króna, skuldir 140 milljónir og eigið fé 18 milljónir króna.

Félagið var upphaflega stofnað árið 1960 af hjónunum Gunnari Jónssyni og Sigríði Regínu Waage endir nafninu Gunnars majones. Það félag var lýst gjaldþrota árið 2014.

Kleópatra keypti vörumerki Gunnars, uppskriftir, heimasíðu, markaðsefni og allan búnað af félaginu skömmu fyrir gjaldþrotið árið 2014 af systrunum Helenu og Nancy Gunnarsdætrum. Kaupverðið nam 62,5 milljón króna, greitt með skuldabréfi til tíu ára með 7,25% ársvöxtum.

Skiptastjóri Gunnars majones höfðaði nokkur riftunarmál, þar á meðal vegna sölunnar til Gunnars ehf. Alls námu lýstar kröfur í þrotabúið 191 milljón króna og greiddust 115 milljónir upp í kröfur, meðal annars eftir að dómssátt náðist við Kleópötru.