Bresk ríkisskuldabréf hafa lækkað nokkuð í verði í dag eftir að Englandsbanki, seðlabanki Bretlands, ítrekaði að hann myndi hætta kaupum á ríkisskuldabréfum á föstudaginn næsta líkt og staðið hefur til.

Ávöxtunarkrafa á 30 ára breskum ríkisbréfum hækkaði um 0,2 prósentustig í dag og er nú komin upp í 5%. Í umfjöllun Financial Times segir að aukinn söluþrýsting á ríkisbréfunum megi m.a. rekja til ummæla breska seðlabankastjórans, Andrew Bailey, sem varaði lífeyrissjóði í gær að þeir hefðu „aðeins þrjá daga eftir og þið verðið að finna út úr þessu“.

Breska landssamband lífeyrissjóða hafði fyrr í vikunni kallað eftir því að kaupáætlun seðlabankans yrði framlengd út mánuðinn eða þar til Kwasi Karteng fjármálaráðherra kynnir áform til að draga úr skuldum ríkisins.

Eftir að fjáraukalög nýrrar ríkisstjórnar Liz Truss voru kynnt í síðasta mánuði féll gengi breska pundsins og krafa ríkisbréfa hækkaði töluvert. Á örfáum dögum hækkaði krafa 30 ára ríkisbréfa úr 3,75% í yfir 5,0% áður en Englandsbanki greip inn í þann 28. september síðastliðinn. Krafan snarlækkaði í kjölfarið og fór undir 4% en er nú aftur komin upp í 5%.

„Það sem gerðist í breska lífeyriskerfinu [] á rætur að rekja til skarprar hækkunar á ávöxtunarkröfu bresku ríkisskuldabréfanna sem var viðbragð markaðarins við áformum ríkisstjórnarinnar. Lífeyrissjóðirnir þurftu að bregðast við með því að selja skuldabréf til að geta mætt veðköllunum,“ sagði Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við LSE, við Viðskiptablaðið í síðustu viku.

Frá því að Englandsbanki tilkynnti um stórtæk kaup á ríkisbréfum hefur hann auk þess hækkað hámarkskaup á einum degi og byrjað að kaupa verðtryggð ríkisbréf til að reyna að koma í veg fyrir brunasölu hjá lífeyrissjóðum.

Seðlabankinn hefur nýtt um 9 milljarða punda af 65 milljarða punda kaupheimild sinni, að því er kemur fram í frétt FT.