Undanfarin ár hafa reynst krefjandi fyrir kvikmyndahús hér á landi og víðar í heiminum. Heimsfaraldurinn sem hófst árið 2020 reyndist þungt högg og voru takmarkanir í gildi fram til ársins 2022, sem eðli málsins samkvæmt gerði það að verkum að aðsókn í kvikmyndahús hrundi og dró úr framleiðslu.

„Kvikmyndahúsin fóru í gegnum mjög krefjandi tímabil í kjölfar heimsfaraldursins. Lokanir, óvissa og langvarandi seinkun á stóru titlunum hafði áhrif – ekki aðeins á rekstur heldur líka á hegðun og væntingar áhorfenda,“ segir Alfreð Ásberg Árnason, framkvæmdastjóri Sambíóanna, en Sambíóin urðu líkt og aðrir fyrir verulegu tekjutapi og röskun á starfsemi. Þrátt fyrir það hafi þau ekki fengið frekari styrkveitingar vegna áhrifa faraldursins.

Annað högg kom árið 2023 þegar handritshöfundar í Hollywood fóru í verkfall sem stóð yfir í hátt í hálft ár og meðan þeirra verkfall stóð enn yfir fylgdu leikarar í kjölfarið með verkfalli sem stóð yfir í fjóra mánuði. Að sögn Alfreðs hafði þetta víðtæk áhrif langt fram á árin 2024 og 2025 og innan bransans hafi margir spurt sig hvort kvikmyndahúsið sé að missa tengingu við samtímann.

Þá hafi borið á gagnrýni að kvikmyndaverin hafi verið of sein að koma efni í dreifingu eftir að verkföllum lauk, sem hafi valdið sveiflum í framboði. Í ofanálag hafi verið mikil eftirspurn eftir vinnuafli í tengslum við framleiðslu streymisefnis og því vöntun á starfsfólki, bæði tæknifólki og fólki í skapandi fögum.

„En það er mikilvægt að horfa á heildarmyndina. Við sjáum nú merki um að kvikmyndahúsið sé að endurheimta traust og áhorf – hægt og bítandi. Fólk leitar aftur í stærri upplifanir og við sjáum skýr merki um að áhuginn fer vaxandi, sérstaklega í kringum stóra titla og sérviðburði. Þar er þetta gamla sagan að maður er manns gaman og sameiginleg upplifun er engu lík,“ segir Alfreð.

„Við hjá Samfilm höfum brugðist við með því að styrkja samstarf við stúdíó og dreifingaraðila, og lagt aukna áherslu á bíóið sem upplifun – ekki bara sýningu. Við höfum líka lagt áherslu á breiðara val og sveigjanlegri dagskrá, sem gerir okkur kleift að bregðast skjótt við sveiflum í markaðnum,“ segir hann enn fremur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.