Bandaríski hlutabréfamarkaðurinn opnaði rauður í morgun eftir birtingu verðbólgutalna fyrir septembermánuð fyrr i dag. S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 1,4%, Nasdaq Composite um 2% og Dow Jones Industrial Average um 0,9% í fyrstu viðskiptum frá opnun markað.
Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 8,2% í september, samanborið við 8,3% í ágúst, en greiningaraðilar áttu von á enn meiri hjöðnun. Þá jókst kjarnaverðbólgan, sem gefur merki um undirliggjandi verðbólguþrýsting, úr 6,3% í 6,6% á milli mánaða. Kjarnaverðbólga, sem undanskilur sveiflukennda vöruflokka í matvæla- og orkugeiranum, hefur ekki mælst meiri í fjóra áratugi.
Ávöxtunarkrafa á tveggja ára bandarískum ríkisskuldabréfum hækkaði um 0,2 prósentustig, upp í 4,51% og hefur ekki verið hærri frá árinu 2008, að því er kemur fram í frétt Financial Times.
Íslenska úrvalsvísitalan hefur lækkað um hálft prósent það sem af er degi. Mesta lækkunin er með hlutabréf Origo, Eimskips og Sjóvár en gengi þeirra hefur fallið um meira en 3% í dag.