Landsbankinn hefur tilkynnt um hækkun vaxta í kjölfar stýrivaxtahækkunarinnar í síðustu viku. Breytingarnar taka gildi á morgun, 12. október.

Landsbankinn hækkar breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,25 prósentustig og verða þeir nú 7,25%.

Fastir vextir nýrra óverðtryggðra íbúðalána hjá Landsbankanum eru óbreyttir en fastir vextir nýrra verðtryggðra íbúðalána hækka um 0,30 prósentustig. Breytilegir vextir á verðtryggðum íbúðalánum hækka um 0,25 prósentustig.

Þá hækka kjörvextir á óverðtryggðum og verðtryggðum útlánum um 0,25 prósentustig.

Yfirdráttarvextir Landsbankans hækka um 0,25 prósentustig og vextir á óverðtryggðum sparireikningum hækka að jafnaði um 0,25 prósentustig. Vextir almennra veltureikninga hækka um 0,05 prósentustig.