Langisjór ehf, sem á m.a. Ölmu íbúðafélag og fjárfestingarfélagið Brimgarða, hefur gert yfirtökutilboð í Eik fasteignafélag. Þetta kemur fram í Kauphallartilkynningu frá Eik.
Langisjór keypti í dag 6 milljónir hluta í Eik fasteignafélagi auk þess að taka við 442 milljónum hluta frá dótturfélagi sínu Brimgörðum.
Langisjór fer því nú sameiginlega með 1.029.061.237 hluta, sem er um 11,7 milljarðar króna að markaðsvirði. Eignarhluturinn gefur Langasjó atkvæðisrétt upp á 30,06% í Eik.
Þar sem félagið og samstarfsaðilar hafa eignast meira en 30% atkvæðisrétt í Eik hefur myndast tilboðsskylda, samkvæmt lögum um yfirtökur.
Gunnar Þór Gíslason, stjórnarformaður Langasjávar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að formlegt tilboðsyfirlit verði sent til hluthafa bráðlega en hluthafar hafa í kjölfarið að lágmarki fjórar vikur til að taka afstöðu.
„Við munum í kjölfarið heyra hljóðið í meðeigendum okkar í félaginu og heyra þeirra afstöðu,“ segir Gunnar.
Hann væntir þess að tilboðsyfirlitið verði klárt í byrjun september en framtíðaráform Langasjós samþykki hluthafar tilboðið munu þar koma fram.
Bjóða 11 krónur á hlut
Langisjór mun gera öllum hluthöfum Eikar yfirtökutilboð innan fjögurra vikna. Fyrirhugað tilboðsverð mun hljóða upp á 11 krónur á hlut og mun greiðast með reiðufé. Í tilkynningunni segir að tilboðsverðið fyrirhugaða sé í samræmi við 2. mgr. 103. gr. yfirtökulaga.
Langisjór er í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna sem oft eru kennd við heildverslunina Mata.
Eignir Langasjós námu 110 milljörðum króna í árslok 2022 samkvæmt síðasta birta ársreikningi félagsins. Eigið fé Langasjós var um 27,6 milljarðar og eiginfjárhlutfallið var um 25%.