Langi­sjór ehf, sem á m.a. Ölmu íbúðafélag og fjárfestingarfélagið Brimgarða, hefur gert yfir­töku­til­boð í Eik fast­eigna­fé­lag. Þetta kemur fram í Kaup­hallar­til­kynningu frá Eik.

Langi­sjór keypti í dag 6 milljónir hluta í Eik fast­eigna­fé­lagi auk þess að taka við 442 milljónum hluta frá dótturfélagi sínu Brim­görðum.

Langisjór fer því nú sam­eigin­lega með 1.029.061.237 hluta, sem er um 11,7 milljarðar króna að markaðsvirði. Eignarhluturinn gefur Langasjó atkvæðisrétt upp á 30,06% í Eik.

Þar sem fé­lagið og sam­starfs­aðilar hafa eignast meira en 30% at­kvæðis­rétt í Eik hefur myndast til­boðs­skylda, samkvæmt lögum um yfirtökur.

Gunnar Þór Gísla­son, stjórnar­for­maður Langa­sjávar, segir í samtali við Viðskiptablaðið að form­legt til­boðs­yfir­lit verði sent til hlut­hafa bráð­lega en hlut­hafar hafa í kjöl­farið að lág­marki fjórar vikur til að taka af­stöðu.

„Við munum í kjöl­farið heyra hljóðið í með­eig­endum okkar í fé­laginu og heyra þeirra af­stöðu,“ segir Gunnar.

Hann væntir þess að til­boðs­yfir­litið verði klárt í byrjun septem­ber en fram­tíðar­á­form Langa­sjós sam­þykki hlut­hafar til­boðið munu þar koma fram.

Bjóða 11 krónur á hlut

Langisjór mun gera öllum hlut­höfum Eikar yfir­töku­til­boð innan fjögurra vikna. Fyrirhugað tilboðsverð mun hljóða upp á 11 krónur á hlut og mun greiðast með reiðu­fé. Í tilkynningunni segir að tilboðsverðið fyrirhugaða sé í samræmi við 2. mgr. 103. gr. yfirtökulaga.

Langisjór er í eigu systkinanna Eggerts Árna, Guðnýjar Eddu, Gunnars Þórs og Halldórs Páls Gíslabarna sem oft eru kennd við heildverslunina Mata.

Eignir Langasjós námu 110 milljörðum króna í árslok 2022 samkvæmt síðasta birta ársreikningi félagsins. Eigið fé Langasjós var um 27,6 milljarðar og eiginfjárhlutfallið var um 25%.