Verðlag hefur hækkað um 185% eða hátt í þrefaldast frá aldamótum en laun fjórfaldast á sama tíma. Kaupmáttur launa hefur því aukist um 50%. Hátt í þrír fjórðu hlutar þeirrar aukningar, eða 36%, hafa komið til síðastliðinn áratug.

Sé litið fram hjá fasteignaverði hafa laun tekið enn lengra fram úr verðlagi, sem hefur hækkað um 136% á þann mælikvarða og kaupmáttur því aukist um 78% frá aldamótum og og 53% síðasta áratuginn.

Sjö af átta vörum kostuðu færri vinnustundir

Mikil umræða hefur verið um verðbólgu síðustu misseri enda verðlag ekki hækkað jafn hratt hér á landi síðan í eftirköstum hrunsins og kreppunni sem við tók. Verðbólga ætti þó að vera Íslendingum kunnuglegri en flestum þeim þjóðum sem við berum okkur saman við.

Viðskiptablaðið skoðaði átta algengar og gamalgrónar neysluvörur og þjónustu og hvernig verð þeirra hefur breyst á síðustu tíu og tuttugu árum sem og hversu margar vinnustundir þurfti til að eiga fyrir hverri þeirra miðað við miðgildi reglulegra heildarlauna.

Helmingur þeirra hafði hækkað meira en vísitala neysluverðs yfir tímabilið, tvær um svo til sama hlutfall, og tvær um minna, en þónokkru munaði á hækkununum.

Í öllum tilfellum nema einu hafði tíminn sem það tekur miðgildislaunþegann að vinna sér inn fyrir vörunni dregist saman frá 2012, frá 4,1% minni vinnu fyrir bíómiðanum upp í þriðjungi minni fyrir bensínlítranum. Hann þarf hins vegar að vinna fimmtungi lengur í dag en fyrir áratug til að eiga fyrir pylsunni.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.