Leigu­tekjur Eikar fast­eignafélags hf. námu 5.219 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2025, sem er 8,5% meira en á sama tíma­bili í fyrra.

Raun­vöxtur mældist 4,3%, að teknu til­liti til verðlags­breytinga. Heildar­tekjur félagsins voru 5.998 milljónir króna, þar af um 90% frá leigu.

Rekstrar­kostnaður var 2.305 milljónir króna, þar af um 90 milljóna króna ein­skiptis­kostnaður.

Rekstrar­hagnaður fyrir mats­breytingar, sölu­hagnað og af­skriftir (EBITDA) nam 3.693 milljónum króna, eða 3.783 milljónum króna að leiðréttum ein­skiptisliðum.

Hagnaður fyrir tekju­skatt var 4.224 milljónir króna og heildar­hagnaður eftir skatta 3.379 milljónir króna. Hand­bært fé frá rekstri nam 1.943 milljónum króna.

Í lok annars árs­fjórðungs var virðisút­leigu­hlut­fallið 94,8%, sem er 1,2 pró­sentu­stigum hærra en við áramót.

Félagið skrifaði undir nýja og endur­nýjaða leigu­samninga fyrir sam­tals 27.300 fer­metra, þar á meðal alla 2. hæð Skeifunnar 8, fast­eignina að Smiðs­höfða 9 og aukna leigu í Holta­smára 1. Á móti skiluðu leigu­takar um 14.500 fer­metrum.

Mats­breyting fjár­festingar­eigna var jákvæð um 4.293 milljónir króna.

Eigna­safnið, sem í lok júní var metið á 151,5 milljarða króna, hýsir nú leigu­taka á um 95% fer­metra sem eru í út­leigu.

Eik gerir nú ráð fyrir að rekstrar­tekjur ársins 2025 verði 12.270–12.650 milljónir króna og EBITDA 7.735–7.975 milljónir króna.

Félagið greinir frá tekjulækkun um 80 milljóna króna vegna slita á leigu­samningi á öðrum árs­fjórðungi hefur verið tekin inn í spána.

Virðisút­leigu­hlut­fall í árs­lok er áætlað 94–95%, þar sem út­leiga á hluta þróunar­fer­metra færist mögu­lega inn í 2026.

Þegar allir þróunar­fer­metrarnir hafa verið út­leigðir og virðisút­leiga náð 95% á félagið von á árs­tekju­aukningu um 565–590 milljónir króna, miðað við núverandi eigna­safn og án áhrifa af kaupum á Festingu hf.

Eigin­fjár­hlut­fall var 32,4% í lok júní. Vaxta­berandi skuldir námu 88,1 milljarði króna og veðhlut­fall (nettó vaxta­berandi skuldir á móti virði fast­eigna) var 56,1% að teknu til­liti til samþykkts ógreidds arðs.

Í febrúar stækkaði félagið skulda­bréfa­flokkinn EIK 150536 í 6 milljarða króna, með 3,8% verð­tryggðum vöxtum, og notaði hluta fjárins til að greiða niður óhagstæðari bankalán.