Stöðugleiki hefur myndast á leigumarkaði síðustu mánuði og hefur leiguverð þróast í takt við annað verðlag, ólíkt því sem sést hefur á íbúðamarkaði undanfarið. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans um fasteignamarkaðinn sem birt var nú í morgun.
Leiguverð hefur nánast staðið í stað frá upphafi kórónuveirufaraldursins og aðeins hækkað um 1,9% síðan í janúar 2020. Eins og sjá má á grafinu hér að neðan, sem sýnir tólf mánaða hækkun leigu- og kaupverðs, urðu ákveðin tímamót í kringum upphaf faraldursins í marsmánuði árið 2020 þegar kaupverð fjölbýlis byrjaði að hækka ört á sama tíma og leiguverð stóð í stað.
Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á eftirspurn eftir kaupum á húsnæði. Vextir íbúðalána lækkuðu ört í kjölfar stýrivaxtalækkana Seðlabankans sem jók kaupgetu margra. Auk þess hefur hlutfall fyrstu kaupenda aldrei mælst hærra sem dregur úr eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Fækkun ferðamanna hefur einnig gert það að verkum að spenna hefur dregist saman á leigumarkaði, að því er fram kemur í hagsjá Landsbankans.
Í hagsjánni segir jafnframt að leigusamningum hafi fækkað milli ára. Á árinu 2021 hafi að jafnaði 547 leigusamningum verið þinglýst í hverjum mánuði samanborið við 590 mánaðarlega leigusamninga á árinu 2020.