Flestir þeirra lífeyrissjóða sem Viðskiptablaðið leitaði til varðandi mögulegar fjárfestingar í rafmyntum eða rafmyntasjóðunum voru afdráttarlausir í svörum - ekki væri fjárfest í rafmyntum og slíkar fjárfestingar hefðu ekki komið til tals né skoðunar. Örfáir sjóðir vildu þó ekki loka á þann möguleika á að ráðist yrði í fjárfestingar í rafmyntum í framtíðinni, þá líklega í gegnum sérhæfða sjóði, en slíkar ákvarðanir yrðu einungis teknar að vel ígrunduðu máli að loknum tilheyrandi greiningum.

Daði Kristjánsson, sem nýlega yfirgaf Fossa Markaði til að leiða Viska Digital Assets, sem vinnur að því að koma á fót sérhæfðum fagfjárfestasjóði með áherslu á rafmyntir og bálkakeðjutækni, telur eðlilegt að lífeyrissjóðir horfi til þessa ört vaxandi eignaflokks.

„Þessar ótrúlega miklu sveiflur skýrast af því að þetta er ný tækni sem er að verða til, en í mínum huga er langtímahreyfingin upp á við, hún hefur verið það og verður það áfram. Að mínu mati ættu lífeyrissjóðirnir að vilja ná sér í sneið af mest vaxandi markaði komandi ára, þó svo að það þýði ekki að þeir fari með allar sínar eignir í þetta," segir Daði. Í því samhengi bendir hann á að sífellt fleiri nafntogaðir fjárfestar og stofnanafjárfestar séu farnir að fjárfesta í þessum eignarflokki og að gildi hans sé sannað. Að hans mati sé Bitcoin ein flottasta uppfinning sem gerð hefur verið.

„Það verða mörg mál leyst með þessari valddreifingu (e. decentralization) og þetta er alger leikbreytir í því hvernig peningar hreyfast. Með rafmyntum eru verðmæti komin á vefinn á staðlaðan hátt án milliliða, sem hefur aldrei verið hægt áður." Þó svo að miklar sveiflur í gengi rafmynta séu hugsanlega ekki fyrir viðkvæma minnir Daði á að ný tækni þurfi tíma til að festa sig í sessi.

„Fólk þarf að líta þetta svipuðum augum og þegar internetið varð til. Árið 1995 sá fólk svo sannarlega ekki tækifærin í internetinu sem urðu svo síðar," segir Daði. Þegar verið sé að taka upp nýja tækni taki það fólk tíma að tileinka sér hana.

„Það væri ekki verið að fjárfesta fyrir svona háar upphæðir í þessu ef fólk sæi ekki tækifærin."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .