Danski lífeyrissjóðurinn Velliv hefur tilkynnt um umfangsmiklar skipulagsbreytingar sem fela m.a. í sér lokun fjárfestingasviðs og uppsagnir 18 starfsmanna.

Breytingarnar eru hluti af stefnu sjóðsins um að einfalda starfsemi þess og auka skilvirkni.

Starfsmenn Velliv fengu í dag tilkynningu um breytingarnar, sem hafa áhrif á fjárfestingasvið og upplýsingatæknideild sjóðsins. Samhliða þessu hefur Velliv einnig dregið úr ráðningum og losað um 12 viðbótarstöðugildi.

„Þetta er erfiður dagur þar sem við kveðjum 18 öfluga samstarfsmenn, en þá um leið nauðsynlegt skref til að einfalda starfsemi okkar og gera okkur samkeppnishæfari,“ sagði Kim Kehlet Johansen, forstjóri Velliv en Børsen greinir frá.

Meðal þeirra breytinga sem eru fyrirhugaðar er lokun sviðsins sem sérhæfir sig í virkum hlutabréfaviðskiptum, þar sem sjóðurinn hefur ákveðið að leggja meiri áherslu á sjálfvirka og gagnadrifna stefnu í hlutabréfafjárfestingum.

„Við munum nú færa okkur meira yfir í hlutabréfavísitölur og nýta okkur gagnagreiningar við ákvörðunartöku,“ sagði Johansen.

Þá hefur Velliv einnig ákveðið að stöðva frekari félagslegar viðbótarfjárfestingar.

Markmiðið: Samkeppnishæfni og skilvirkni

Velliv hefur um 400.000 viðskiptavini og heildareignir upp á 270 milljarða danskra króna eða tæplega 5.260 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins.

Forysta sjóðsins leggur áherslu á aðhaldssaman rekstur og hagræðingu til að tryggja áframhaldandi samkeppnishæfni.

Skipulagsbreytingar Velliv eru ekki einstakar á danska lífeyrismarkaðnum. Í janúar greindi AP Pension frá uppsögnum 20 starfsmanna og í haust ætlar PFA um svipaðar hagræðingaraðgerðir.

Johansen leggur áherslu á að þessar breytingar séu gerðar í náinni samvinnu við starfsfólk og að sjóðurinn haldi opnum samskiptum við allt sitt fólk um breytingarnar.

„Við erum miður okkar yfir þessu, en reynum að gera það sem best fyrir alla aðila,“ segir Johansen að lokum.