Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljungs, segir að stjórn félagsins hafi tekið ákvörðunina að breyta hefðbundnum rekstri olíufélagsins í fjárfestingafélag árið 2019. Jón Ásgeir, sem tók sæti í stjórninni í maí 2019, leist ekki á blikuna þegar hann mætti fyrst á skrifstofu félagsins.
„Ég hef oft sagt við samstarfsmenn mína í Skeljungi að ég hafi orðið syfjaður við að koma á skrifstofu félagsins árið 2019. Andinn var líkur því að mæta á fund í ríkisstofnun í gamla daga,“ segir í Jón Ásgeir í ávarpi í ársskýrslu Skeljungs sem var birt í gær.
„Nú er andinn annar. Leikgleðin er allsráðandi í hópi frábærra starfsmanna sem ætla sér að skora með sínu liði á nýju ári.“
Hann segir að á síðasta ári hafi ýmsir hlutir komið til framkvæmda sem félagið hafði undirbúið frá árinu 2019. „Þótt sala á Magn beri þar hæst var auk þess lagður grunnur að framtíðaraukningu á verðmætum í eignum félagsins.“
Sjá einnig: Skeljungur verður SKEL Fjárfestingafélag
Í lok síðasta árs var innlendri starfsemi Skeljungs skipt upp í þrjú dótturfélög. Jón Ásgeir segir að þrátt fyrir að stutt sé síðan uppskiptingin var framkvæmd þá finni félagið strax „kraftinn sem er að leysast úr læðingi vegna hennar“.
Skeljungur eignaðist einnig 48% hlut í Sp/f Orkufélaginu í Færeyjum við söluna á Magn. Félagið seldi 13 af 27 fasteignum og lóðum sínum til Kaldalóns og eignast Skeljungur fimmtungshlut í Kaldalóni við viðskiptin. Þá keypti Skeljungur allt hlutafé Löðurs, eignaðist meirihluta í Lyfsalanum og fer með helmingshlut á móti REIR í Fasteignarþróunarfélaginu.
„Hvað varðar frekari fjárfestingar þá munum við í fyrstu horfa til þess að styrkja núverandi eignir ásamt því að leita eftir fjárfestingum í félögum sem nýta sér snjalltækni og nýjar hugmyndir í sölu á vöru og þjónustu. Við viljum vera leiðandi í því að einfalda lífið fyrir fólkið í landinu,“ skrifar Jón Ásgeir.