Kaupmáttur launafólks með meistaragráðu hefur staðið í stað frá aldamótum á sama tíma og kaupmáttur launþega með grunnmenntun hefur vaxið um 44% og lágmarkslauna um 84%.
Samkvæmt nýjustu tölum gefur háskólamenntun 17% hærri laun en grunnmenntun hér á landi sem er langtum lægst meðal samanburðarlanda þar sem meðatalið er 50%.
Þetta kom fram á málstofu sem Sigurður Jóhannesson forstöðumaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hélt fyrr í haust. Sigurður segir meginskýringuna á þessu vera uppgang ferðaþjónustunnar hér á landi og þá gríðarlegu eftirspurn eftir ófaglærðu vinnuafli sem hún hafi skapað.
Skortur á þess konar vinnuafli hafi svo þrýst launum upp og leitt af sér verulegan aðflutning vinnuafls eins og raun ber vitni síðustu misseri, á meðan lítil eftirspurn sé eftir háskólamenntuðum starfskrafti innan ferðaþjónustunnar.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.