Loftleiðareiturinn, þar sem finna má höfuðstöðvar Icelandair og Natura hótelið, mun taka miklum breytingum á næstu árum ef skipulagstillaga Reita gengur í gegn. Hún gerir ráð fyrir íbúðauppbyggingu, matvöruverslun, borgarlínustöð og svo mun almenningsrými koma í stað bílastæðanna fyrir framan innganginn á hótelinu og skrifstofunum.
Reitir undirrituðu 2,3 milljarða króna kaupsamning við dótturfélag Icelandair um kaup á fasteigninni að Nauthólsvegi 50, þar sem skrifstofur flugfélagsins eru til húsa. Icelandair verður áfram í skrifstofuhúsnæðinu, sem er 6.474 fermetrar að stærð, næstu tvö árin en hyggst svo flytja höfuðstöðvarnar á Flugvelli í Hafnarfirði árið 2024.
Friðjón Sigurðarson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Reita, fór yfir hugmyndir að breytingu á reitnum á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur í sumar . Að hans sögn stefna Reitir á að hótelið verði áfram á sínum stað á Loftleiðareitnum.
Hins vegar sé til skoðunar að skrifstofurými Icelandair fari í önnur not, þá mögulega í svokallaðar „co-living“ íbúðir þar sem íbúar deila rýmum á borð við þvottahúsi, eldhúsi og vinnuaðstöðu. Friðjón sagði að meðal annars væru hugmyndir um að koma upp matvöruverslun, líkamsrækt og kaffihúsi á svæðinu. Hann birti jafnframt eftirfarandi mynd þar sem sýnt er hvernig aðlaga mætti lóðamörkin til að koma fyrir þremur byggingarreitum.
Mynd tekin af fundi Reykjavíkurborgar í sumar um grænar samgöngur.
Úr borgurum í íbúðablokk
Reitir hyggjast einnig breyta Suðurlandsbraut 56, þar sem Metro hamborgarastaðurinn er nú til húsa og McDonalds var á árum áður, í íbúðablokk og atvinnuhúsnæði. Stefnt er að því að íbúðirnar verða 87 talsins og að atvinnurýmið verði um 1.200 fermetrar.
Í fjárfestakynningu Reita fyrir þriðja ársfjórðung var einnig fjallað um Hallarmúla 2, sem stendur á bak við Hilton Reykjavik Nordica hótelið sem Reitir eiga líka. Til skoðunar er að byggja fjölbýlishús á reitnum en í dag er hann að mestu nýttur í bílastæði en einnig er þar að finna verslun Fjallakofans.
Hugmyndir Reita og Tríólí arkitekta fyrir Metrolóðina. Mynd tekin úr fjárfestakynningu Reita.