Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,2% í 4,5 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Fjórðungur veltunnar var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 3%. Gengi Marels stendur nú í 471 krónu, sem er um 7,8% hærra en við lokun markaða á mánudaginn. Gengið er engu að síður 45% lægra en í upphafi árs.
Næst mesta veltan, eða um einn milljarður króna, var með hlutabréf Origo sem lækkuðu um 1,2%. Hlutabréf Origo náðu sínu hæsta dagslokagengi í 82,5 krónum eftir 18% hækkun í gær en stóð í 81,5 krónum við lokun Kauphallarinnar í dag. Hækkun Origo í gær má rekja til sölu félagsins á 40% hlut í Tempo á 28 milljarða króna sem tilkynnt var um á miðvikudagskvöldið.
Kvika banki lækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 2,7% í 70 milljóna viðskiptum. Arion banki fylgdi á eftir í 2,3% lækkun en gengi bankans stendur nú í 157 krónum. Hlutabréfaverð Íslandsbanka lækkaði einnig um 1,1% og stendur nú í 123,6 krónum.