Orkuskortur hefur tekið að birtast á sífellt fleiri sviðum og virðist útlitið svart í nánustu framtíð. Ljóst er að frekari orkuvinnsla er ekki væntanleg á næstunni en gríðarleg eftirspurn er á mörkuðum samhliða verðhækkunum.
Raforkumarkaðurinn á Íslandi hefur einkennst af ógagnsæi í gegnum tíðina, þar sem upplýsingar um viðskipti milli aðila á markaði hafa ekki verið gerðar opinberar. Sú breyting varð í ár að raforkukauphöllin Vonarskarð hóf starfsemi með viðskipti á heildsölumarkaði og hefur söluferli með grunnorku, sem afhent er í heilt ár í senn, verið haldið í fjórgang á þeim vettvangi.
Athygli vekur að mikil umframeftirspurn var í öllum uppboðum. Fyrir utan fyrsta uppboðið, þar sem engin viðskipti fóru fram, bárust aðeins sölutilboð fyrir árin 2025 og 2026 en kauptilboð bárust í ársblokkir til og með ársins 2029. Eftirspurn var fimmfalt meiri en framboð á rafmagni í grunnorku.
Í síðasta uppboði bárust t.a.m. sölutilboð í um 25 MW árið 2025 en kauptilboð í um 35 MW og árið 2026 bárust sölutilboð í 10 MW en kauptilboð í rúm 40 MW. Eins og áður segir bárust engin sölutilboð þar eftir en fyrir árið 2027 bárust kauptilboð í 50 MW og rúm 20 MW árin 2028 og 2029.
Óljóst er hvort, og þá hversu mikil, umframeftirspurn hefur verið eftir raforku á heildsölumarkaði undanfarin ár þar sem virkur og gagnsær raforkumarkaður hefur ekki verið starfræktur.
Blikur virðast þó hafa verið á lofti en Landsvirkjun gaf það út að beiðnir sem bárust í október sl. um grunnorku fyrir árið 2024 hafi verið nokkuð umfram væntingar, talsvert umfram grunnorkusölu á árinu 2023 og ekki í samræmi við þróun almenns álags. Fyrirtækið gaf aftur á móti ekki út hversu mikil umframeftirspurnin hafi verið.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í morgun. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.