Fyrrum eigendur Stálsmiðjunnar - Framtak voru með tæplega 1,6 milljarða króna í fjármagnstekjur í fyrra, samkvæmt álagningarskrá ríkisskattstjóra. Stálsmiðjan - Framtak var í eigu sex einstaklinga, sem fóru með tæplega 16,7% hlut hver, þar til Vélsmiðja Orms keypti allt hlutafé í fyrra.
Þau Hilmar Kristinsson, Bjarni E Thoroddsen, Páll Kristinsson, Björn Steingrímsson, Berit G. R. Þórhallsdóttir og Óskar Rúnar Olgeirsson voru með um og yfir 260 milljónir króna í fjármagnstekjur hvort um sig árið 2023. Berit er eiginkona Hermanns Baldvinssonar, sem var skráður einn eigenda í ársreikningi 2022.
Hagnaður Stálsmiðjunnar - Framtaks nam 42 milljónum króna í fyrra, samanborið við 210 milljónir árið 2022. Tekjur lækkuðu einnig milli ára og námu 1,9 milljörðum árið 2023, samanborið við 2,2 milljarða árið áður.
Eignir voru bókfærðar á tæplega 1,4 milljarða og eigið fé nam 904 milljónum um síðustu áramót. Eiginfjárhlutfall styrktist verulega milli ára en árið 2023 var m.a. greidd upp 660 milljóna króna skuld við hluthafa.
Vélsmiðja Orms varð við kaupin móðurfélag bæði Vélsmiðju Orms og Víglundar og Stálsmiðjunnar - Framtak en systurfélögin voru sameinuð þann 1. maí 2024 samkvæmt ársreikningum. Móðurfélagið hefur þegar þetta er skrifað ekki skilað inn ársreikningi fyrir árið 2023.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast listann yfir 150 fjármagnstekjuhæstu einstaklingana árið 2023 í heild hér.