Á meðal almennings telja 59 prósent æskilegt að Ísland nái kolefnishlutleysi árið 2040 eða fyrr en innan við helmingur, eða 44 prósent fyrirtækja. Um þetta vitnar ný könnun Gallup, sem unnin var í aðdraganda Ársfunds atvinnulífsins sem haldinn verður á morgun, fimmtudag. Frekari tíðinda úr könnuninni er að vænta sem kynnt verða á fundinum.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA, segir fjögur gildi þurfi að varða leiðina að kolefnishlutleysi; nýta verði til fulls öll tækifæri til grænnar verðmætasköpunar, koma þurfi í veg fyrir óþarfa gjaldheimtu á fólk og fyrirtæki, velja þurfi tímasetningar aðgerða stjórnvalda í þessa veru með hliðsjón af tækniþróun og skapa þurfi hvata til fjárfestinga í grænni umbreytingu.

„Þær aðgerðaráætlanir sem settar hafa verið fram af íslenskum stjórnvöldum og atvinnulífinu eru metnaðarfullar og er það vel. Hins vegar er mikilvægt að samhliða séu lagðir til jákvæðir hvatar frekar en neikvæðir. Græn skattlagning ein og sér, án þess að tæknin sé til reiðu, breytir ekki hegðun. Hins vegar gætu jákvæðir hvatar sem styðja við fjárfestingu í grænum lausnum og innleiðingu á nýrri tækni flýtt allri þróun til muna.”

Samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum ætla stjórnvöld að ná þremur fjórðu af árangrinum með sköttum, bönnum og kvöðum samkvæmt greiningu samtakanna. Á ársfundinum verður meðal annars fjallað um þessar áskoranir og lausnir sem atvinnulífið leggur til.

„Það er mikilvægt að muna að loftslagsmálin eru hnattrænt viðfangsefni. Það eru líka tækifæri sem felast í grænni umbreytingu á heimsvísu og þar skiptir sköpum hvar við sem þjóð ætlum að staðsetja okkur.“

Í könnuninni kemur einnig fram að samhljómur er á meðal almennings og fyrirtækja innan SA um mikilvægi þess að auka græna orkuframleiðslu, ekki síst í því skyni að halda niðri raforkuverði hér á landi.

Könnun Gallups var framkvæmd dagana 23. ágúst – 5. september. Stærð úrtaksins var 1943 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr viðhorfahópi Gallups. Fjöldi svarenda var 928, sem gerir 47,8 prósent svarhlutfall.

Horfa má á Ársfund atvinnulífsins í beinu streymi á morgun 19. september kl. 15:00 á vb.is.