Kristján Berg Ásgeirsson, betur þekktur sem Fiskikóngurinn, segir að sala á heitum pottum hafi aldrei gengið jafnvel og í ár, en hann rekur verslunina heitirpottar.is auk þess að reka fiskverslunina Fiskikónginn. Hann segir Covid hafa haft gríðarleg áhrif á sölu á heitum pottum í öllum heiminum. „Salan hjá okkur í ár er 20% meiri en í fyrra. Ég er búinn að vera selja potta í 16 ár en fór að einbeita mér að fullum krafti í þessu fyrir fimm árum síðan og það hefur verið hvert metárið á eftir öðru á síðustu árum."
Hann segir mikla framboðshnökra vera á pottum í heiminum í dag. Mikil aukning hefur verið á eftirspurn eftir pottum um allan heim í kjölfar faraldursins og hefur salan til að mynda áttfaldast í Kanada og í Evrópu.
„Ef ég ætlaði að panta pott núna hjá mínum framleiðanda væri það um 6-12 mánaða bið, sem þykir í raun lítið miðað við núverandi ástand. Það er allt komið á yfirsnúning í öllum heiminum í pottum.“ Hann segist hins vegar vera vel undirbúinn fyrir þessum örðugleikum. „Ég er alinn upp á eyjunni Íslandi og Íslendingar eru kröfuharðir, þeir vilja pottinn sinn í dag eða á morgun. Ég panta því alltaf hressilega inn og á alltaf potta á lager, en ég á núna 300 potta á lager.“
Gáfu í við upphaf faraldursins
„Þegar faraldurinn hófst í fyrra fór ég yfir stöðuna með auglýsingastjóra fyrirtækisins og við sáum fyrir okkur tvær aðferðir. Önnur þeirra var að stoppa alla starfsemi, draga saman seglin, grenja í koddann og hætta auglýsingum. Við ákváðum frekar að gefa í hressilega, en á þeim tíma hafði ég ekki hugmynd um hvernig faraldurinn myndi hafa áhrif á reksturinn. Við tókum þessa áhættu og hún heppnaðist, um leið og allir drógu saman seglin og auglýstu minna fengu okkar auglýsingar meira vægi fyrir vikið."
Hann segir fyrirtækið leggja mikið upp úr háu þjónustustigi þar sem Íslendingar eru kröfuharðir. „Við erum með pípara, rafvirkja, vörubílstjóra og allt sem þarf til að veita toppþjónustu í sölu á pottum. Við kennum okkar viðskiptavinum hvernig á að nota hreinsiefni og síur svo vatnið í pottunum haldist hreint og fínt, sem er afar mikilvægt. Við erum einnig til taks hvar sem er á landinu innan við 48 tíma ef eitthvað gerist fyrir pottinn. Það er mikilvægt fyrir eigendur Airbnb íbúða eða hótela að geta lagað pottinn sem þau bjóða upp á strax, enda hafa þau selt ákveðna upplifun. Ef eitthvað kemur upp á með pott á höfuðborgarsvæðinu þá förum við í það strax.“
Verslunin selur Arctic Spas pottana sem byggðir eru fyrir kanadískar aðstæður, en þar getur orðið mikið frost. „Á Íslandi erum við að glíma við svipaðan óvin sem er vindurinn. Hann kælir vatnið í pottinum og því er mikilvægt að vera með öfluga potta til að halda pottinum heitum.“
Hlutu söluverðlaun þriðja árið í röð
Heitirpottar.is var kosið „dealer of the year“ þriðja árið í röð, sem verðlaunar bestu sölubúð Arctic Spas pottanna. „Í viðskiptaheiminum gera sér ef til vill ekki margir grein fyrir hve stór verðlaun þetta eru, en þetta er mjög stórt í pottaheiminum.“ Verðlaunin eru veitt í febrúar en sökum Covid hefur ráðstefnan ekki farið fram í tvö ár. „Við fengum innrammaða viðurkenningu senda í gámi nú fyrr í mánuðinum, það var mjög sérstök upplifun.“
„Það sem stendur upp úr hjá okkur er starfsfólkið, það er að gera frábæra hluti,“ en um 25 manns vinna í heildina fyrir Heita potta og Fiskikónginn.
Kristján segir að hann ætli sér ekki endilega að stækka fyrirtækið mikið meira. „Markmiðið hjá okkur er ekki að stækka, bara halda utan um það sem við erum buinn að byggja upp. Við erum alveg sáttir á þeim stað sem við erum. Það er ekkert alltaf betra að vera stærri og stærri.“
„Er í heita vatninu og kalda vatninu“
Kristján segir skötusölu Fiskikóngsins ganga vel. „Við erum stærsti skötuframleiðandi á landinu og erum með sextán tonn af skötu. Ég er satt best að segja búinn að fá leið á þessari lykt, hef verið með hana í nefinu í meira en þrjátíu ár.
Kristján segir það henta mjög vel að tvinna fiskversluninni saman með og heitapottaversluninni. Hann vinnur í fisknum á morgnanna til hádegis og í pottunum eftir hádegi. „Slagorðið mitt er að ég er í heita vatninu og kalda vatninu. Kaldi potturinn minn er í fiskinum og heitu pottarnir er seinni partinn.“