Alvotech skilaði mettekjum af lyfjasölu á fyrri helmingi ársins 2025 og náði sögulegum áfanga í rekstri þegar annar ársfjórðungur varð sá besti í sögu félagsins hvað varðar handbært fé frá rekstri.
Samkvæmt nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins námu tekjur af sölu lyfja 204,7 milljónum Bandaríkjadala á fyrri helmingi ársins, sem er yfir 200% aukning frá sama tímabili í fyrra (65,9 milljónir dala).
Vöxturinn skýrist einkum af aukinni sölu á hliðstæðunni AVT02 í Evrópu, Kanada og Bandaríkjunum, auk AVT04 á fjölmörgum mörkuðum, þar á meðal í Bandaríkjunum.
Leyfisgreiðslur og aðrar tekjur námu 101,3 milljónum dala, lægri en í fyrra þegar tímabundnir áfangar í lyfjaþróun leiddu til hærri tekna.
Kostnaðarverð seldra vara hækkaði í 139,3 milljónir dala vegna aukinnar framleiðslu en hagkvæmni jókst samhliða.
Rekstrarhagnaður nam 28,6 milljónum dala, samanborið við 43,4 milljónir dala í fyrra. Bókfærður hagnaður nam 141,7 milljónum dala, sem er verulegur viðsnúningur frá 153,5 milljóna dala tapi á sama tímabili í fyrra.
Lausafjárstaða var sterk í lok júní, 151,5 milljónir dala, studd af auknum tekjum, fjármögnun á sænskum markaði að andvirði 789 milljóna sænskra króna og lækkun vaxtakostnaðar um 8,2 milljónir dala eftir endurfjármögnun langtímalána.
Skuldsetning enn töluverð
Heildarskuldir Alvotech voru 1,12 milljarðar Bandaríkjadala í lok júní, þar af 46 milljónir dala í afborgunum næsta árs.
Félagið hefur nýverið sameinað tvö langtímalán í eitt með 6,0% álagi á millibankavexti í dollurum (SOFR), sem lækkar vaxtakostnað til næstu 12 mánaða um rúmar 8,2 milljónir dala.
Sex prósenta álag á SOFR endurspeglar þó enn fremur háan fjármagnskostnað og að lánveitendur telji áhættu í rekstri félagsins verulega.
Í kjölfar samningsins var bókfærður 16,7 milljóna dala hagnaður vegna lækkunar skulda og lægra vaxtaálags. Stjórnendur leggja áherslu á að styrkja eiginfjárstöðu og halda áfram að lækka fjármagnskostnað.
Annar fjórðungur 2025 var sá besti í sögu Alvotech fyrir handbært fé frá rekstri, sem skýrist af áframhaldandi vexti í vörusölu og bættu greiðsluflæði frá samstarfsaðilum.
Tekjur af lyfjasölu í fjórðungnum námu 120,7 milljónum dala, samanborið við 37,7 milljónir dala á sama tímabili í fyrra.
Á fjórðungnum var gengið frá samstarfi við Advanz Pharma um markaðssetningu fjögurra hliðstæðna í Evrópu og við Dr. Reddy’s Laboratories um sameiginlega þróun og framleiðslu hliðstæðu við Keytruda (AVT32). Markmiðið er að stytta þróunartíma, deila kostnaði og ná hraðari útbreiðslu á alþjóðamörkuðum.
Í byrjun júlí keypti Alvotech svissneska fyrirtækið Ivers-Lee, sem sérhæfir sig í pökkun lyfja, auk þess sem rannsóknarstarfsemi Xbrane í Stokkhólmi og tilheyrandi hugverkaréttur að AVT10 var keyptur. Þessi kaup styrkja bæði þróunar- og framleiðsluferlið.
Linda Jónsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Marel, tók við starfi fjármálastjóra í júlí.