Míla mun á næstu mánuðum bjóða við­skipta­vinum tí­falt hraðari ljós­leiðara­tengingu undir merkjum „10x – Vett­vangur til fram­tíðar.“

Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá fyrir­tækinu en þar mun fjar­skipta­fé­lögum og við­skipta­vinum þeirra standa til boða að upp­færa heimili á ljós­leiðara Mílu í 10 gíga­bita á sekúndu á völdum svæðum innan höfuð­borgar­svæðis strax 1. októ­ber.

Sam­kvæmt fyrir­tækinu á inn­leiðingu 10x á höfuð­borgar­svæðinu að ljúka fyrir 1. apríl nk. Inn­leiðing 10x á lands­byggðinni hefst síðan í fram­haldinu.

„Á haust­fundi fjar­skipta­inn­viða­fyrir­tækisins Mílu sem haldinn var í dag, þriðju­dag 22. ágúst, kynnti fyrir­tækið í fyrsta sinn á Ís­landi mögu­leika á tí­földun hraða ljós­leiðara­tenginga til heimila og fyrir­tækja. Net­tenging með 10 gíga­bita á sekúndu í báðar áttir er tí­földun þess hraða sem best þekkist í dag,“ segir í til­kynningu.

Samkvæmt Mílu verður þessi aukna geta inn­leidd í þrepum og hefst þann 1. októ­ber næst­komandi en til þess að virkja tæknina þarf að skipta um búnað á báðum endum ljós­leiðarans.

„Fyrsta svæðið sem býður allt að 10 gíga­bita á sekúndu er þjónustu­svæði Múla­stöðvar í Reykja­vík. Öðrum svæðum höfuð­borgar­svæðisins verður fyrst um sinn boðinn mögu­leiki á 2,5 gíga­bita á sekúndu sem upp­færður verður í skrefum, með það að mark­miði að fyrir 1. apríl 2024 verði eigi öll heimili á höfuð­borgar­svæðinu sem tengjast ljós­leiðara Mílu að hafa mögu­leika á 10x að­gangi.“

Tuttugu virk tæki á hverju heimili

Að mati fyrir­tækisins er rík þörf á tíföldun hraða þar sem heimili nýta sífellt meiri gagnamagn.

„Sjón­varps­þjónusta í miklum gæðum, leikja­spilun, eða fjar­vinna með mikið gagna­magn og gagn­virkni krefst sí­tengingar við net og mikils hraða. Hægt verður að tengja mörg tæki við netið á sam­tímis án þess að það hægi á sér.“

Á­ætlar Míla að á næstu árum séu allt að 20 virk tæki á hverju heimili sem krefjast net­tengingar.

„Símar og tölvur á­samt sjón­varps­tækjum og mynd­lyklum, ryk­sugu­vél­mennum og svo fram­vegis. Mynd­streymi 4K eða 8K gæðum, gervi­greind, sýndar­heimar og aukin notkun skýja­lausna kallar á betri tengingar,“ segir í til­kynningu.