Míla mun á næstu mánuðum bjóða viðskiptavinum tífalt hraðari ljósleiðaratengingu undir merkjum „10x – Vettvangur til framtíðar.“
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu en þar mun fjarskiptafélögum og viðskiptavinum þeirra standa til boða að uppfæra heimili á ljósleiðara Mílu í 10 gígabita á sekúndu á völdum svæðum innan höfuðborgarsvæðis strax 1. október.
Samkvæmt fyrirtækinu á innleiðingu 10x á höfuðborgarsvæðinu að ljúka fyrir 1. apríl nk. Innleiðing 10x á landsbyggðinni hefst síðan í framhaldinu.
„Á haustfundi fjarskiptainnviðafyrirtækisins Mílu sem haldinn var í dag, þriðjudag 22. ágúst, kynnti fyrirtækið í fyrsta sinn á Íslandi möguleika á tíföldun hraða ljósleiðaratenginga til heimila og fyrirtækja. Nettenging með 10 gígabita á sekúndu í báðar áttir er tíföldun þess hraða sem best þekkist í dag,“ segir í tilkynningu.
Samkvæmt Mílu verður þessi aukna geta innleidd í þrepum og hefst þann 1. október næstkomandi en til þess að virkja tæknina þarf að skipta um búnað á báðum endum ljósleiðarans.
„Fyrsta svæðið sem býður allt að 10 gígabita á sekúndu er þjónustusvæði Múlastöðvar í Reykjavík. Öðrum svæðum höfuðborgarsvæðisins verður fyrst um sinn boðinn möguleiki á 2,5 gígabita á sekúndu sem uppfærður verður í skrefum, með það að markmiði að fyrir 1. apríl 2024 verði eigi öll heimili á höfuðborgarsvæðinu sem tengjast ljósleiðara Mílu að hafa möguleika á 10x aðgangi.“
Tuttugu virk tæki á hverju heimili
Að mati fyrirtækisins er rík þörf á tíföldun hraða þar sem heimili nýta sífellt meiri gagnamagn.
„Sjónvarpsþjónusta í miklum gæðum, leikjaspilun, eða fjarvinna með mikið gagnamagn og gagnvirkni krefst sítengingar við net og mikils hraða. Hægt verður að tengja mörg tæki við netið á samtímis án þess að það hægi á sér.“
Áætlar Míla að á næstu árum séu allt að 20 virk tæki á hverju heimili sem krefjast nettengingar.
„Símar og tölvur ásamt sjónvarpstækjum og myndlyklum, ryksuguvélmennum og svo framvegis. Myndstreymi 4K eða 8K gæðum, gervigreind, sýndarheimar og aukin notkun skýjalausna kallar á betri tengingar,“ segir í tilkynningu.