Ørsted, stærsta orkufyrirtæki Danmerkur, þurfti aftur að afskrifa milljarða á öðrum ársfjórðungi en félagið heldur áfram að tapa peningum. Mads Nipper, forstjóri Ørsted, segist þó bjartsýnn fyrir framtíðina í samtali viðBørsen.
Síðasta haust þurfti Ørsted að afskrifa 26,8 milljarða danskra króna eða um 546 milljarða íslenskra króna eftir að vindmylluverkefni fyrirtækisins í Bandaríkjunum fór að forgörðum.
Fjárfestar voru að vonast eftir meiri ró yfir rekstri félagsins í ár en fyrirtækið þurfti að afskrifa 3,9 milljarða danskra króna eða um 79 milljarða íslenskra króna á gengi dagsins á öðrum ársfjórðungi. Tap félagsins á fyrri helmingi ársins nam 1,7 milljörðum danskra króna.
Hlutabréfaverð Ørsted, sem er skráð í Kauphöllinni í Kaupmannahöfn, féll um 7% í fyrstu viðskiptum en hefur síðan tekið örlítið við sér.
Mads Nipper segist þó ekki hafa miklar áhyggjur af fyrirtækinu þar sem þrátt fyrir milljarða tap segir hann að EBITDA félagsins sé á uppleið en hún jókst um 5,3 milljarða danskra króna á öðrum ársfjórðungi.
„Ég er ánægður með fjórðunginn og rekstrarniðurstaðan er sterk. Við höfum unnið okkar vinnu og skilað næstum 60% betri EBITDA á öðrum ársfjórðungi í samanburði við sama tímabil í fyrra,“ segir Nipper.
Verkefnið Revolution Wind eða Vindbyltingin er enn á dagskrá í Bandaríkjunum þrátt fyrir að verkefnið sé í töluverðum fjárhagsvandræðum.
Um er að ræða vindmylluverkefni rétt fyrir utan austurströnd Bandaríkjanna en framkvæmdir áttu að hefjast í haust en hefur verið seinkað.
„Það er steinn í götu Vindbyltingarinnar sem er óásættanlegt en að öðru leyti er ég ánægður með fjórðunginn,“ segir Nipper.
Áætlað er að vindmyllurnar vestanhafs verði teknar í notkun árið 2026 fremur en 2025 eins og stóð til.
Þessi seinkun ein og sér olli því að félagið varð að afskrifa 2,1 milljarð danskra króna á síðasta fjórðungi.
Krísuáætlun félagsins frá því í febrúar, eftir að stærsta vindmylluverkefnið vestanhafs fór að forgörðum, gaf til kynna að félagið ætlaði að ná að framleiða 35-38 gígavött af grænni orku í Bandaríkjunum fyrir árið 2030.
Félagið stefndi áður á 50 gígavött. Heildarfjárfesting Ørsted er nú áætluð um 270 milljarðar danskra króna á tímabilinu sem er um 38% minni fjárfesting en upphaflega var lagt upp með.