Ørsted, stærsta orku­fyrir­tæki Dan­merkur, þurfti aftur að af­skrifa milljarða á öðrum árs­fjórðungi en fé­lagið heldur á­fram að tapa peningum. Mads Nipper, for­stjóri Ørsted, segist þó bjart­sýnn fyrir fram­tíðina í sam­tali viðBørsen.

Síðasta haust þurfti Ørsted að af­skrifa 26,8 milljarða danskra króna eða um 546 milljarða ís­lenskra króna eftir að vind­myllu­verk­efni fyrir­tækisins í Banda­ríkjunum fór að for­görðum.

Fjár­festar voru að vonast eftir meiri ró yfir rekstri fé­lagsins í ár en fyrir­tækið þurfti að af­skrifa 3,9 milljarða danskra króna eða um 79 milljarða ís­lenskra króna á gengi dagsins á öðrum árs­fjórðungi. Tap fé­lagsins á fyrri helmingi ársins nam 1,7 milljörðum danskra króna.

Hluta­bréfa­verð Ørsted, sem er skráð í Kaup­höllinni í Kaup­manna­höfn, féll um 7% í fyrstu við­skiptum en hefur síðan tekið ör­lítið við sér.

Mads Nipper segist þó ekki hafa miklar á­hyggjur af fyrir­tækinu þar sem þrátt fyrir milljarða tap segir hann að EBITDA fé­lagsins sé á upp­leið en hún jókst um 5,3 milljarða danskra króna á öðrum árs­fjórðungi.

„Ég er á­nægður með fjórðunginn og rekstrar­niður­staðan er sterk. Við höfum unnið okkar vinnu og skilað næstum 60% betri EBITDA á öðrum árs­fjórðungi í saman­burði við sama tíma­bil í fyrra,“ segir Nipper.

Verk­efnið Re­volution Wind eða Vind­byltingin er enn á dag­skrá í Banda­ríkjunum þrátt fyrir að verk­efnið sé í tölu­verðum fjár­hags­vand­ræðum.

Um er að ræða vind­myllu­verk­efni rétt fyrir utan austur­strönd Banda­ríkjanna en fram­kvæmdir áttu að hefjast í haust en hefur verið seinkað.

„Það er steinn í götu Vind­byltingarinnar sem er ó­á­sættan­legt en að öðru leyti er ég á­nægður með fjórðunginn,“ segir Nipper.

Á­ætlað er að vind­myllurnar vestan­hafs verði teknar í notkun árið 2026 fremur en 2025 eins og stóð til.

Þessi seinkun ein og sér olli því að fé­lagið varð að af­skrifa 2,1 milljarð danskra króna á síðasta fjórðungi.

Krísu­á­ætlun fé­lagsins frá því í febrúar, eftir að stærsta vind­myllu­verk­efnið vestan­hafs fór að for­görðum, gaf til kynna að fé­lagið ætlaði að ná að fram­leiða 35-38 gíga­vött af grænni orku í Banda­ríkjunum fyrir árið 2030.

Fé­lagið stefndi áður á 50 gíga­vött. Heildar­fjár­festing Ørsted er nú á­ætluð um 270 milljarðar danskra króna á tíma­bilinu sem er um 38% minni fjár­festing en upp­haf­lega var lagt upp með.