Eignarhaldsfélagið Egg ehf., móðurfélag bílaumboðsins BL, hefur gengið frá kaupum á öllu hlutafé Bílaleigu Flugleiða ehf., sérleyfishafa Hertz á Íslandi. Greint var frá viðskiptunum í október síðastliðnum en nú hafa allir fyrirvarar, þar á meðal samþykki Hertz International og Samkeppniseftirlitsins, verið uppfylltir.
Eignarhaldsfélagið Egg ehf. er í eigu hjónanna Ernu Gísladóttur og Jóns Þórs Gunnarssonar. Eignasafn Eggs inniheldur bílaumboðið BL, Egg fasteignir, dekkjaheildsölufyrirtækið Mítra, hleðslufyrirtækið Ísorka og Flex langtímaleiga.
„Líkt og önnur félög í eignasafni Eggs verður rekstur bílaleigunnar áfram með sjálfstæðum hætti og í óbreyttri mynd. Bílaleiga Flugleiða er á meðal stærstu bílaleiga landsins, með um 3.500 bíla í rekstri á háannatíma ársins,“ segir í tilkynningu sem Egg sendi frá sér.
Sigurður tekur við af Sigfúsi Bjarna
Seljendur Hertz á Íslandi eru Norðurlöndin ehf., sem átti 60% hlut í Bílaleigu Flugleiða, og framtakssjóðurinn Horn III slhf., sem átti 40%. Norðurlöndin ehf. er í eigu Hendriks Berndsen, Sigfúsar Bjarna Sigfússonar, Sigfúsar Ragnars Sigfússonar og Sigurðar Berndsen sem fara með 25% hlut hver um sig.
Í tilkynningunni kemur fram að Sigfús Bjarni Sigfússon, sem verið hefur forstjóri Hertz, láti af störfum samhliða þessum breytingum. Sigurður Berndsen, sem verið hefur fjármálastjóri og aðstoðarforstjóri síðan 2010, tekur við starfi forstjóra Hertz á Íslandi.