Finnur Beck, framkvæmdastjóri Samorku, segir orkumálin skipta miklu máli, ekki síst þegar kemur að loftslagsmarkmiðunum og vexti atvinnulífsins.

„Þetta er ekki lengur hin 20 ára gamla umræða um orkumál, þar sem alltaf var hugsað um að ný orka hefði í för með sér að stóriðja kom til landsins. Nú er atvinnulífið að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir græna orku og nýr vöxtur er drifinn áfram af grænni orku, þá eru ný orkuöflunarverkefni jafntengd almennri orku fyrir atvinnulífið,“ segir Finnur og bendir þar m.a. á orkuskiptin.

Verði ekkert gert sé hætt við að Ísland missi samkeppnishæfni sína á meðan aðrar þjóðir taka miklum framförum.

„Ísland hefur ákveðið forskot og ákveðna samkeppnishæfni sem er ekki sjálfgefin ef stjórnvöld og stjórnmálin á Íslandi fara ekki að opna augun fyrir verkefninu sem þau standa frammi fyrir,“ segir Finnur en sömuleiðis gæti það orðið gríðarlegt tjón fyrir þjóðarbúið.

„Ég vona að það þurfi ekki að koma til þess að tjónið reki okkur af stað í að gera nauðsynlegar breytingar sem við þurfum að gera, heldur að stjórnvöld sjái það fyrir sem búið er að sýna fram á með gögnum, og taki frekar ákvarðanir áður en að mikið efnahagslegt tjón hlýst af.“

Finnur ítrekar þó að orku- og loftslagsmál þurfi ekki að vera neikvætt viðfangsefni í almennri umræðu. Framtíðin sé spennandi og gríðarleg tækifæri blasi við.

„Saga Íslands á þessu sviði, krafturinn í Íslendingum og gögnin sem við höfum til þess að taka ákvarðanir, leiða okkur öll til þeirrar niðurstöðu að Ísland geti áfram verið í fremstu röð.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild hér.