Norvik, eignarhaldsfélag í eigu Jóns Helga Guðmundssonar og fjölskyldu, hefur sent tilkynningu til sænsku Kauphallarinnar um að lagt verði fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Bergs Timber AB sem starfar í alþjóðlegum timburiðnaði.
Norvik á fyrir tilboðið tæplega 59% hlut í Bergs og hefur verið stærsti hluthafi félagsins frá árinu 2016. Eignarhluturinn kom til í kjölfar sölu Norvik á erlendri starfsemi sinni til Bergs. Síðan þá hefur Norvik stutt við uppbyggingu félagsins, að því er segir í tilkynningu.
86% yfir dagslokagenginu í gær
Tilboðið hljóðar upp á gengið 44,50 sænskar krónur fyrir hvern hlut í Bergs í reiðufé. Til samanburðar var gengi félagsins í 23,90 sænskar krónur á hlut við lokun markaða í gær. Tilboðið er því 86% yfirverði miðað við markaðsverð hlutabréfanna í gær.
Heildarverðmæti hlutafjár Bergs í tilboði Norvik er áætlað 1,54 milljarðar sænskra króna sem samsvarar um 19,3 milljörðum íslenskra króna.
Hlutabréfaverð sænska félagsins hefur hækkað um yfir 70% í fyrstu viðskiptum og stendur nú í 43,7 sænskum krónum á hlut.
Tækifærin meiri í óskráðu umhverfi
Óháðir stjórnarmeðlimir Bergs eru sagðir styðja tilboðið og mæla með að hluthafar félagsins taki tilboðinu. Tilboðið er háð fyrirvörum, svo sem um að Norvik eignist 90% hlut í félaginu og að viðeigandi yfirvöld veiti samþykki fyrir viðskiptunum.
„Stefnt var á yfirtökur og önnur tækifæri sem fæli í sér að eignarhlutur Norvik í félaginu færi lækkandi. Sú stefna hefur ekki gengið eftir auk þess sem markaðsaðstæður hafa breyst til verri vegar. Til viðbótar hafa nýlegar aðgerðir, fjárfestingar og verkefni hjá Bergs ekki endurspeglast í skráðu gengi félagsins,“ segir í tilkynningu Norviks.
„Norvik hefur því komist að þeirri niðurstöðu að tækifærin til að nýta möguleika Bergs til fulls séu meiri í óskráðu umhverfi.“